138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um störf þingsins er nokkuð lýsandi fyrir stöðuna í íslenskum stjórnmálum í dag. Hér kemur í ljós fullkomið getuleysi ríkisstjórnarinnar varðandi stórmál eins og skuldavanda heimilanna. Hv. þm. Illugi Gunnarsson gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir sofandahátt gagnvart því að skapa tekjur fyrir landsmenn í gegnum orkusölu og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tekur undir það. Síðan kemur það enn og aftur fram að hv. þm. Ögmundur Jónasson gagnrýnir mjög heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar og hv. þm. Magnús Orri Schram grípur til varna.

Sjónarmið hv. þm. Ögmundar Jónassonar eru mjög áhugaverð því að hv. þingmaður gagnrýnir það harðlega að hér veiti menn erlendum sjúklingum þjónustu. Þetta eru skýr skilaboð til þeirra aðila sem veita þessa þjónustu alla daga, t.d. sjúklingum frá Færeyjum, Grænlandi og Noregi, augnsteinaaðgerðir og annað slíkt. Það komu 60 sjúklingar á mánuði í slíkar aðgerðir. Þessir aðilar skulu fara að vara sig. (ÖJ: Þetta er útúrsnúningur.) Þeir sem eru ráðandi aðilar í ríkisstjórninni ætla ekki að láta menn komast upp með að skapa gjaldeyristekjur og vinna á biðlistum í öðrum löndum með þeirri aðstöðu og því fólki sem við höfum hér. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom í veg fyrir það sem heilbrigðisráðherra að leigja mætti út skurðstofur sem voru ekki nýttar og þess vegna er ríkisstjórnin væntanlega að setja 100 millj. í að byggja upp annan spítala nokkrum metrum frá. Við vitum alveg að þegar kemur að þessum málum ráða Vinstri grænir þannig að í hrossakaupunum í ríkisstjórninni verður það væntanlega ofan á að koma í veg fyrir að gjaldeyristekjur skapist við að sinna erlendum sjúklingum. (ÖJ: Hann þekkir til hrossaskaupa, þessi.)