138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðurnar sem hafa átt sér stað um atvinnuuppbyggingu og þá sérstaklega á Suðurnesjum. Menn vita að þegar varnarliðið hvarf á braut tóku heimamenn sig saman og gerðu stórátak í að bæta og fjölga þeim atvinnutækifærum sem hægt var að koma með ný inn á þetta svæði. Eftir bankahrunið er staðan hins vegar sú á Suðurnesjum að þar eru hlutfallslega flestir atvinnulausir á landsvísu. Það er alvarlegt og ég kalla fram frá ríkisstjórnarflokkunum, sérstaklega frá Vinstri grænum: Hvað ætla menn að gera til að sporna við þessari þróun? Það má ekki hlusta á hugmyndir heimamanna. Það má ekki koma með einhverjar bisnesshugmyndir eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson talar hér um fjálglega af mikilli hæðni, að því er manni heyrist. Ekki má það. Það má ekki koma með einhvern einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, það er óhollt. Það má ekki byggja upp álver eða stóriðju í Helguvík, það má ekki heldur. Hvað má þá? Hver er framtíðarsýn Vinstri grænna fyrir hönd þeirra atvinnulausu íbúa Suðurnesja sem hlusta á þessa umræðu? Hver er framtíðarsýnin?

Nú er spurt hver eigi að fjármagna þessa heilbrigðisþjónustu. Ég spyr til baka: Hver á að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð ef ríkisstjórnin hefur þá einu stefnu að halda þeim sem eru þar á atvinnuleysisbótum? Hver á að fjármagna það á endanum? Hver á að fjármagna það þegar heilbrigðisstéttirnar hafa yfirgefið landið? Hver á að fjármagna Atvinnuleysistryggingasjóð þegar menn flýja land eins og vísbendingar komu um í síðustu viku? Ég spyr, og er nema von að maður spyrji þegar þröngsýnin og fordómarnir birtast manni með jafnskýrum hætti og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar? Ef stefna Vinstri grænna á að vera ráðandi hér á landi hef ég áhyggjur af því að menn fari einfaldlega vegna þess að það er greinilega ekki (Forseti hringir.) eftir neinu að bíða ef það má ekki nýta þau tækifæri sem liggja í spilunum.