138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu sem á sér stað hér. Mig langar að koma inn á skuldavanda heimilanna, eins og komið hefur verið inn á áður í umræðum um störf þingsins.

Skuldavandi heimilanna er búinn að vera í mjög langan tíma mjög alvarlegur. Að mínu viti er hann núna búinn að vera um ákveðinn tíma grafalvarlegur. Úrlausnarefnin sem þessu ágæta fólki er boðið upp á eru því miður ekki nægileg og við þurfum ekki að taka með pólitískar háværar deilur um það. Ég held að flestir hv. þingmenn séu sammála um að við þessum vanda verður að bregðast (Gripið fram í: Það gerist ekki.) því að gríðarlegar hörmungar ganga yfir heimilin í landinu. Við verðum að sameinast um lausnir. Við komum öll inn á þing með það markmið að reyna að verja og byggja skjaldborg um heimilin í landinu. Það er einu sinni þannig.

Það kom fullt af hugmyndum um hvernig ætti að bregðast við og því miður virðumst við oft detta í þær pólitísku grafir að deila um það hverjir séu betri eða skárri. Það er skylda allra hv. þingmanna að leggjast nú á árarnar, öll sem eitt, og reyna að vinna á þessum vandamálum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að eftir að maður verður meira og meira var við hvað er að gerast í þjóðfélaginu — og maður þarf ekki að hlusta á fréttir í marga daga til að verða áskynja um að af stórfyrirtækjum eru afskrifaðar miklu hærri upphæðir í heildina en dygði til að hjálpa öllum heimilunum í landinu. Ég bara spyr, virðulegi forseti: Á hvaða vegferð erum við? Nú skulum við taka höndum saman öll sem eitt og berjast fyrir því að bjarga heimilunum í landinu og forða þeim frá öllum þeim hörmungum sem þau stefna í. Ég heiti á alla hv. þingmenn að við stöndum saman um það mál en dettum ekki í pólitískar grafir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)