138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Hann hefur áður sýnt að hann er verðugur arftaki þeirra fulltrúa Framsóknarflokksins sem hafa beitt sér fyrir málefnalegri umræðu um Evrópusambandið og hugsanlega aðild okkar að því. Ég þakka það og hlýt auðvitað að þakka það að Framsóknarflokkurinn hefur verið í forgöngu umræðna hér á landi á síðasta áratug.

Við erum rétt að hefja þessa vegferð og eins og kom fram fyrr í dag er þetta kannski sögulegur dagur að því leyti til að framkvæmdastjórnin hefur í dag beint því til leiðtogaráðsins að samþykkja upphaf samningaviðræðna við Ísland.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, gera þarf töluvert miklar breytingar á því sem hann kallar stjórnkerfi og skipulagsheildir til að við getum talist tæk inn í Evrópusambandið. Ýmsar þær þjóðir sem hafa farið í gegnum þetta ferli hafa þurft að gera alveg gríðarlega viðamiklar breytingar. Okkar breytingar verða miklu minni vegna þess að við erum aðilar að Schengen, við erum aðilar að EES og fyrir vikið eru það bara afmarkaðir málaflokkar sem við munum þurfa að gera þessar breytingar á. Það er, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, fyrst og fremst á sviði byggðamála og landbúnaðar sem það þarf.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þau mál eru ekki komin það langt í þessu ferli að hægt sé að svara nákvæmlega þeim spurningum sem hann varpar fram um kostnaðartölur og fjölda ársverka. Þetta er til umræðu og til stefnumótunar í samningahópum viðkomandi málaflokka og þegar hv. þingmaður kemur hingað, vonandi sem fyrst, verður því máli undið lengra fram og þá get ég kannski gefið honum ítarlegri upplýsingar um tölurnar. Ég get hins vegar reifað þau meginatriði sem koma til skoðunar og sem liggja undir í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Þau eru rétt að byrja.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, er alveg ljóst að endurskoða þarf þann strúktúr sem við höfum á sviði landbúnaðarmála. Það þarf að vera til staðar stofnun sem fer með þá fjármuni sem ESB mun ráðstafa til Íslands. Það þarf líka að vera fyrir hendi stjórnar- og eftirlitsnefnd sem er ætlað að tryggja rétta framkvæmd byggðastefnunnar og sömuleiðis dreifbýlisþróunarstefnu, þetta tvennt sem, með leyfi forseta, heitir á ensku „Regional Policy and Rural Development Policy“. Af okkar hálfu er alveg klárt að það mun koma til skoðunar hvort þessi störf geti verið unnin innan einnar og sömu stofnunar, jafnvel stofnunar sem er þegar fyrir hendi. Og við munum að sjálfsögðu líta sérstaklega til þess hvernig slík stofnun geti sem best þjónað hagsmunum bænda og hvernig þessi starfsemi geti tengst núverandi stofnunum. Það er eitt þeirra verkefna sem hljóta að vera undir í þessu máli.

Að því er byggðamálin sjálf varðar þarf annaðhvort að koma á fót stofnun í þessu sama skyni eða tilnefna einhverja stofnun sem er fyrir til að sinna þessum hlutverkum. Við munum vitaskuld við útfærslu á þessu leita ráða hjá ýmsum góðum félögum og samtökum sem þekkja þetta í okkar góðu nágrannalöndum.

Hv. þingmaður spyr um áætlaðan kostnað við þessa framkvæmd. Eins og ég sagði get ég ekki farið út á þá braut að svo stöddu vegna þess að ekki liggur nákvæmlega fyrir með hvaða hætti við munum haga skipan þessara mála. Hins vegar vil ég ekki draga nokkra dul á það að slík uppstokkun verður umtalsvert kostnaðarsamari en núverandi kerfi. Við vitum auðvitað öll sem höfum með einhverjum hætti komið að þessum málum að við Íslendingar greiðum að sönnu hlutfallslega hærri landbúnaðarstyrki en ESB en styrkjakerfi okkar er einhæfara og þar af leiðandi einfaldara í framkvæmd. Landbúnaðar- og dreifbýlisstyrkir ESB ná til fleiri búgreina og verkefnaflokka sem augljóslega gerir kröfu um enn meira eftirlit með því að framkvæmdin sé rétt og öll meðferð fjármuna reglum samkvæmt. Að sama skapi hljóta auðvitað skilaboð frá okkur til þeirra sem að þessu vinna að vera að það sé nauðsynlegt að sýna sem allra mesta ráðdeild á þessu sviði við skipulag og stefnumótun innan málaflokksins. Ég tel sjálfur að það sé einsýnt að horfa í þessu samhengi til skipulags núverandi stofnana til að tryggja sem mest hagræði og skilvirkni til hagsbóta bæði fyrir viðtakendur fjármunanna og líka fyrir ríkissjóð.

Síðast spyr hv. þingmaður hvað þetta kalli á mörg viðbótarársverk í stjórnkerfinu. Ég hef þegar sagt að hvað varðar ársverkin og fjölda þeirra er of skammt komið vinnunni til að hægt sé að kveða upp úr um það. Miðað við reynslu annarra þjóða verður það umfang nokkru meira en það sem nú er.