138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eftir því sem tíminn líður sést hve arfavitlaust það var að sækja um aðild að ESB á þessum tíma. (VigH: Heyr, heyr.) Þegar efnahagsmálin eru eins og þau eru og vandinn heima fyrir er gífurlegur sést það enn betur.

Ég verð að viðurkenna í þessum sal að ég sé eftir hverri krónu sem fer í þessa aðildarumsókn. Eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra getur hann ekki svarað því nákvæmlega hver kostnaðurinn er. Þetta er sem sagt óútfylltur tékki og við vitum hvernig þeir eru og hvernig þeir geta endað. Meðan við þurfum að skera niður í almannaþjónustu, heilbrigðiskerfi og víða í þjóðfélaginu, í velferðarkerfinu, og spara — t.d. er hagræðingarkrafa upp á 30 millj. kr. hjá Ríkisútvarpinu og talað um að leggja niður allar svæðisstöðvarnar — er verið að eyða peningum í þetta. (Gripið fram í.) Við vitum að þetta verður kolfellt og ég vildi gjarnan sjá að þessi umsókn (Forseti hringir.) færi í þjóðaratkvæði 6. mars og yrði dregin til baka. (VigH: Heyr, heyr.)