138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag er á fréttavefnum visir.is a.m.k. fjallað um þessa ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og þar segir að Íslendingar verði að gera átak, með leyfi forseta, „í að samræma löggjöf landsins og sambandsins og/eða innleiða tilskipanir varðandi sjávarútveg, landbúnað, þróun landsbyggðarinnar“ o.s.frv. Það er ekkert um að semja, hæstv. utanríkisráðherra, við eigum að innleiða það sem er búið að ákveða í Evrópusambandinu.

Það er ekki aðalmálið sem ég ætlaði að ræða hér heldur það að vitanlega er með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli koma hingað með engin svör við þeim spurningum sem hafa verið bornar fram, (VigH: Heyr, heyr.) ekki nokkurt einasta svar. Að hæstv. utanríkisráðherra skuli halda áfram í þessari vegferð með opinn tékka eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á áðan er algerlega óábyrgt. Við hljótum að krefjast þess af ráðherranum að hann komi hingað í síðasta lagi í næstu viku með upplýsingar um áætlaðan kostnað af þessu sem hv. þingmaður spurði um áðan. Annað er (Forseti hringir.) ólíðandi.