138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarmenn hafa ályktað um að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu (Gripið fram í: Ja-á.) með ákveðnum skilyrðum. Við tókum þessa umræðu í sumar. Þá fórum við yfir þetta allt saman og greiddum hér atkvæði. Þá var bankahrunið fyrir löngu orðið staðreynd. Við vissum alveg í hvað stefndi og við vissum alveg að það yrði erfitt í fjármálum hér þannig að það er ekkert nýtt að koma fram í þessari umræðu, virðulegi forseti. Mjög stór hópur framsóknarmanna er mjög ánægður með þá stöðu sem þetta mál er í. Það er líka hópur sem er óánægður. Ég greiddi atkvæði með aðild og ég tel að þetta mál sé í eðlilegu ferli. Nú er verið að vinna að því að skoða hvernig okkar málum verður best fyrir komið innan dyra í Evrópusambandinu. Síðan fær þjóðin að greiða atkvæði. Það er þjóðin sem mun ákveða að lokum hvort við förum inn eða ekki og það verður mjög spennandi að sjá hvaða samningur kemur á borðið, hvort það sé framfaraskref að fara inn eða hvort rétt sé að bíða. Ég ætla ekkert að gefa mér í því sambandi. Ég er mjög opin fyrir því að tengjast öðrum ríkjum til framtíðar. Ég held að það hafi verið mjög gott skref að gera EES-samninginn. (Forseti hringir.) Það tók mikið á framsóknarmenn en það var mjög gott að við gerðum hann. Það má vel vera að það verði gott að fara inn í ESB, við vitum það bara ekki enn þá. Það kemur í ljós þegar samningurinn (Forseti hringir.) er kominn.