138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa áhugaverðu spurningu sem er mjög mikilvæg. Nú tala ég sem gamall fjárlaganefndarmaður um reynslu mína í samskiptum við utanríkisráðuneytið sem hefur ætíð hagað sér eins og ríki í ríkinu þegar kemur að fjárlagagerð og þess vegna er mikilvægt að við höldum hæstv. utanríkisráðherra við efnið í þessu því eins og hv. þingmaður nefndi þá verðum við að vita hversu miklum fjármunum við ætlum að eyða í umsóknarferlið og þess vegna er aðhald þingsins ákaflega mikilvægt.

Hins vegar er ljóst að ef við ræðum um aðildarumsóknina sem slíka þá eru skiptar skoðanir innan allra flokka í þeim efnum og sá sem hér stendur vill skoða hvað kemur út úr fyrirhuguðum samningaviðræðum við Evrópusambandið án þess að hafa gefið sér fyrir fram einhverja niðurstöðu. Eftir að þetta ferli er farið af stað er það ábyrgð íslenskra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að reyna að ná eins góðum samningum og hægt er. Síðan leggjum við þá samninga fyrir þjóðina til synjunar eða samþykktar. Ég treysti íslenskri þjóð til að taka rétta ákvörðun í þeim efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)