138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Alþingi samþykkti í júlí að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var meiri hluti Alþingis sem slíkt gerði. Við erum í því ferli og stöndum í dag frammi fyrir því að aðildarumsóknin hefur verið samþykkt (GBS: Við getum hætt við.) og nú hefjast samningaviðræður. Alþingi getur alltaf ákveðið að taka lög til baka vilji það svo. En þá verður að bera upp slíka tillögu, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. En við erum í þessu ferli.

Ég er ein þeirra sem segja að við eigum að ganga þessa vegferð á enda, sjá hvað upp úr þeim samningum kemur sem við blasa í þessu samningaferli, halda vel og heiðarlega á samningsstöðu Íslands í þessum viðræðum og þegar kemur að því hvort, hvenær eða hvernig samning við fáum þá verður það alltaf íslensk þjóð sem ákveður hvað henni er fyrir bestu, ekki einstaka stjórnmálaflokkar eða einstaka stjórnmálamenn sem telja sig stundum allt vita betur en aðrir.