138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ráðherranum fyrir að gera tilraun til að reyna að svara þessu með hvað skástum hætti en ég verð að viðurkenna að óvissan um kostnað í þessu máli endurspeglaðist mjög í svari ráðherrans og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að við erum á ákveðinn hátt að samþykkja opinn víxil.

Ég vil benda honum á að hægt er að nýta sér skýrslur um inngöngu annarra landa inn í sambandið, t.d. Króatíu. Þar kemur ýmislegt fram um það hvaða stofnanir hefur þurft að setja á fót. Mig langar til að segja hæstv. utanríkisráðherra frá því að ég kynnti mér það í morgun hvernig þessum málum er háttað í Svíþjóð. Í Svíþjóð er svipuð greiðsluskrifstofa um landbúnaðarstyrki og ég talaði um í framsögu minni, Jordbruksverket. Þar starfa í dag 600 starfsmenn, frú forseti, 600 starfsmenn og launakostnaður árið 2008 var 13 milljarðar. Þetta er greiðsluskrifstofa landbúnaðarstyrkja og bara dæmi um eina stofnun. Ég vil að menn hafi það í huga að þessi víxill sem við erum að samþykkja getur verið mjög stór og hár. Mjög mikilvægt er að það komi fram.

Ef vilji þjóðarinnar er sá að hún vill ekki aðild þá verðum við að skoða þá fjármuni sem við munum eyða í aðildarviðræðurnar fram að þeim tímapunkti.

Varðandi orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um að þetta sé þingvenja og annað slíkt þá vil ég taka fram að það er sorglegt að þurfa alltaf að hlusta á Samfylkinguna tala um þetta alþjóðaumhverfi og að við þurfum að vera þjóð á meðal þjóða í alþjóðasamskiptum.

Hvernig var þetta í sjálfstæðisbaráttunni? Þeir vildu fara varlega í henni og ekki styggja Dani. Hvernig var þetta þegar við vorum að semja um landhelgina? Þeir vildu fara varlega í því. (Gripið fram í: Hverjir?) (GBS: Kratarnir.) Kratarnir vildu fara varlega í því og nú þegar komið er að þessu, þá skulum við ekki styggja alþjóðasamfélagið. (VigH: Við breytum ekki ESB) Við eigum að standa (Forseti hringir.) eins og menn og ekki lúta í gras og kyssa alltaf á vöndinn. (Gripið fram í.)