138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

vopnaleit á Keflavíkurflugvelli.

221. mál
[14:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn. Ég hjó eftir því hjá hæstv. ráðherra að hann talaði um að ákveðnir aðilar fengju þessar undanþágur í virðingarskyni, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Mér finnst það persónulega engin óvirðing þótt ég þurfi að gangast undir leit á flugvöllum. Ég hefði haldið að undanþágur sem þessar væru hluti af eldri tíma og að menn þurfi að skoða þessa hluti upp á nýtt. Fréttaflutningur af málum sem þessum hefur verið með ýmsum hætti á undangengnum mánuðum, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, og það væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra, hvort honum finnist að það eigi að útvíkka þessar undanþágur til þess að fleiri öðlist meiri virðingu eða hvort við eigum ekki að hætta þessu og láta alla sitja jafnt. Það er engin óvirðing falin í því að þurfa að ganga í gegnum eitt hlið, hvort sem maður er Jón eða séra Jón.