138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[14:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Svar við fyrri spurningu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er þetta:

Á árunum 2008 og 2009 bauð Vegagerðin út, ýmist sjálf eða með samstarfsaðilum, samtals 95 verkefni. Af þessum verkefnum voru 51 nýbyggingarverkefni, 33 verkefni við viðhald og þjónustu, tíu útboð á ráðgjafarþjónustu og eitt verkefni í almenningssamgöngum. Verkefnin skiptast milli svæða Vegagerðarinnar á eftirfarandi hátt:

Á Suðursvæði: 19 nýframkvæmdir, átta viðhalds- og þjónustuliðir, fjögur ráðgjafarverkefni.

Á Suðvestursvæði: Níu nýframkvæmdaverkefni, sex viðhalds- og þjónustuverkefni, fimm ráðgjafarþjónustuverkefni.

Á Norðvestursvæði: 11 nýframkvæmdir, átta í viðhaldi og þjónustu, eitt ráðgjafarþjónustuverkefni.

Á Norðaustursvæði: 12 nýframkvæmdaverkefni, 11 í viðhaldi og þjónustu, ekkert í ráðgjafarþjónustu en eitt í almenningssamgöngum.

Samtals eru þetta, eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti, um 95 verkefni alls.

Önnur spurningin hljóðar svo: Hversu mörg verk sem voru tilbúin til útboðs hjá Vegagerðinni voru slegin út af borðinu á þessum árum og hvernig skiptast þau milli landshluta?

Nú er það svo, virðulegi forseti, að engin verkefni hafa verið slegin út af borðinu. Hins vegar hefur við niðurskurð hjá síðustu ríkisstjórnum, þar með talið ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og þessari ríkisstjórn, því miður þurft að skera niður til samgönguframkvæmda. Við skulum þó hafa í huga að það er verið að skera niður frá mjög miklu á árunum 2008 og 2009, sem eru mestu framkvæmdaár Íslandssögunnar í vegagerð. Ekkert hefur verið slegið út af borðinu en sumt færst aftar eða frestast ef svo má að orði komast.

Nú er hjá Vegagerðinni tilbúið um 21 nýbyggingarverkefni sem unnt væri að bjóða út. Þau skiptast á milli svæða á eftirfarandi hátt: Sex á Suðursvæði, sama á Suðvestursvæði og Norðvestursvæði og þrjú á Norðaustursvæði eða samtals 21 verkefni.

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður talaði um að efla atvinnulíf og hafa atvinnulífið gangandi vil ég benda á að við höfum öll það markmið. Þegar talað er um að lítið sé að gerast í samgönguframkvæmdum þá mótmæli ég því. Ég hef áður sagt að mestu framkvæmdaár Íslandssögunnar voru 2008 og 2009 en hver er staðan á árinu 2010, þessu hallærisári Íslandssögunnar hvað varðar fjárhag ríkissjóðs, almennings og allra? Hún er sú að við munum vinna fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr. í verkefnum sem eru í gangi á þessu ári. Það er meira en meðaltal áranna 2000–2007 miðað við prósentu af vergri landsframleiðslu. Þetta er nú staðan, virðulegi forseti.

Við erum með tvö verk í gangi. Við buðum mjög mikið út í febrúar til apríl í fyrra. Öll útboð voru keyrð út og miklu hraðar en ætlað var til að koma þeim til verka og hafa þau í gangi sem mest á árinu 2009 og þau verk sem nú eru í gangi árið 2010. Þess ber líka að geta, virðulegi forseti, að mjög mörgum verkum af þeim sem eru í gangi núna og taka þessa 11,5 milljarða lýkur á þessu ári en við erum að bæta við verkefnum. Nýlega höfum við kynnt útboð á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi.

Suðurlandsvegur, það stóra og mikla verkefni, væri komið til útboðs — það þarf að auglýsa á hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að það er svo stórt en þá neitaði Kópavogsbær okkur um framkvæmdaleyfi vegna þess að Kópavogsbær hafði skoðanir á því hvernig gatnamótin yrðu við Bláfjallaafleggjarann. Ég hef átt gott samtal við bæjarstjórann í Kópavogi um þetta mál og ég tók eftir því að fundargerð bæði skipulagsnefndar og bæjarráðs sem kom fyrir bæjarstjórn í gær var vísað aftur til bæjarráðs. Ég á von á því og vona innilega að bæjarráð Kópavogs endurskoði afstöðu sína vegna þess að það er ekki í verkahring sveitarfélaganna að segja til um hvernig við byggjum vegi. Þau veita okkur hins vegar framkvæmdaleyfi eða ekki. Ef Kópavogsbær veitir okkur ekki framkvæmdaleyfi vegna Suðurlandsvegar verður bara að hafa það vegna þess að við erum tilbúin með önnur verkefni í staðinn. Það verður bara að vera alveg klárt. Ég ítreka að ég hef fulla trú á því að þetta mál leysist hjá Kópavogsbæ núna á næstunni vegna þess að þótt við séum að byggja þessi gatnamót á plani, eins og það kallast í dag, er ekki útilokað að þar verði mislæg gatnamót í framtíðinni þegar umferðarmagnið eykst og hagur okkar Íslendinga vænkast á ný, sem verður innan skamms þegar við erum búin að klára Icesave og komin lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.