138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir þau orð sem hér hafa fallið og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafði áðan varðandi Suðurlandsveg. Mjög mikilvægt er að Kópavogsbær fjalli aftur og mjög hratt um þetta mikilvæga mál, því að ef þetta er byggt á einhverjum misskilningi þarf að eyða honum strax vegna þess að framkvæmdin þarf að komast áfram. Það er alveg ljóst.

Mig langar að nota tækifærið undir þessari umræðu, og að sjálfsögðu þakka ég fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina, og segja að það er ekki nóg, hæstv. samgönguráðherra, að vera með plön um nýframkvæmdir, það þarf að sjálfsögðu að koma þeim áfram og koma þeim í gang. Og það er nú ekki svo að sveitarfélögin standi yfirleitt í vegi fyrir því, hvort sem það er byggt á misskilning eða einhverju öðru er það ekki svo.

Ég vil líka hvetja hæstv. samgönguráðherra til þess að beita sér fyrir því t.d. að vetrarþjónusta sé með sómasamlegum hætti, ekki síst á landsbyggðinni því að töluvert vantar upp á það. Svo vil ég upplýsa ráðherrann um það að ég keyrði Barðaströndina fyrir skömmu á jeppa, hún var ófær fyrir fólksbíl og (Forseti hringir.) það var vegna drullu.