138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu og stuðning frá þingmönnum. Hv. fyrirspyrjandi sagði gefa þyrfti von um framkvæmdir hjá þeim sem vinna í þessum geira og það er alveg hárrétt. Þess vegna tek ég alltaf fram það sem ég hef sagt hér um framkvæmdir og framkvæmdamagnið á þessu ári: Það er mikið þrátt fyrir allt, en það verður líka að taka fram, virðulegur forseti, að árin 2012 og 2013 verða ekki mörg verk í gangi sem taka yfir þau ár vegna þess hve mörg verk klárast á þessu ári vítt og breitt um landið og á öllum svæðum.

Ég hef því miður ekki í höfðinu nú þessa skiptingu, hvernig þessir 11,5 milljarðar skiptast eftir svæðum Vegagerðarinnar, ég er ekki með það með mér, en ég get t.d. tekið sem dæmi að það eru jarðgangaverkefni á tveimur stöðum, á Norðvestursvæði og Norðaustursvæði. Ég get ímyndað mér að þau taki a.m.k. 40% af þessum framkvæmdum. Þar er verið að klára verk og þau eru að sjálfsögðu mjög dýr.

Svo ég komi líka inn á það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði um verktaka, að þá skorti verkefni, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan að þrátt fyrir erfiðleikaár er þetta mikið í gangi. Það sem vantar hins vegar inn í þennan geira eru framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Hjá Vegagerðinni sem slíkri eru þær þrátt fyrir það þetta miklar, þó að við náum ekki metárunum 2008 og 2009. Og þegar ég tala um 11,5 milljarðana, er það fyrir utan framkvæmdir í flugmálum og hafnamálum, tökum sem dæmi Landeyjahöfn, þannig að það blandast nú inn í þetta, virðulegi forseti.

Aðeins hvað varðar Suðurlandsveg, ég ítreka það sem ég sagði að ég held að þetta hafi verið byggt á misskilningi og ég er vissum að mitt góða samtal við hinn ágæta bæjarstjóra í Kópavogi hefur leitt til þess að þetta var tekið til skoðunar í gær í bæjarstjórn. Ég trúi ekki öðru en að þetta hafi verið byggt á misskilningi og við fáum framkvæmdaleyfi og þá erum við tilbúin til auglýsinga á þessu.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, það er ekki hægt að komast yfir allt sem hér hefur verið sagt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég þakka fyrirspyrjanda og þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu (Forseti hringir.) um framkvæmdir í vegamálum vegna þess að þær eru alltaf góðar og þær leiða ýmislegt í ljós, eins og t.d. um framkvæmdamagn þessa árs.