138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

lögregluréttur.

207. mál
[15:15]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina, hv. þingmaður vekur hér máls á mjög mikilvægu atriði. Ekki hefur farið fram sérstök athugun á því hvort við eigum að setja á fót lögreglurétt, en ég skil fyrirspyrjanda svo að hún nefni líka til sögunnar aðra möguleika þannig að minni mál fari hraðar í gegnum kerfið. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það er mjög mikilvægt að eitthvað verði gert í því.

Í þessu samhengi tel ég rétt að benda á XXIII. kafla laga um meðferð sakamála og reglugerð um lögreglustjórasáttir. Samkvæmt þessum kafla sakamálalaga og viðeigandi ákvæðum reglugerðar um lögreglustjórasáttir er lögreglunni veitt heimild, til að ljúka máli með sektargreiðslu þegar einstaklingur er staðinn að broti, og greiðsla sektar allt að 100.000 kr. og niðurstaða máls færast ekki í sakaskrá. Þá er lögreglunni veitt heimild berist henni kæra sem heyrir undir ákæruvald lögreglu eða lögregla stendur mann að slíku broti, til að ljúka máli með því að gefa sakborningi kost á að gangast undir sektargreiðslu auk sakarkostnaðar. Skilyrði fyrir þessu er að lögreglustjóri telji að viðurlög við broti fari ekki fram úr tímabundinni ökuréttarsviptingu eða verðmæti þess sem gera á upptækt eða að fjárhæð sektar fari ekki fram úr 500.000 kr.

Ég vil af þessu tilefni láta þess getið að ég tel vel koma til greina að auka heimildir ákæruvaldsins til að ljúka málum án aðkomu dómstóla. Það er rétt að hafa í huga að meðferð ákæruvalds er nú í höndum mun færri embætta en áður og ég tel fyrir mitt leyti rétt að byggja upp enn færri og öflugri lögregluembætti eins og áður hefur komið fram sem yrðu þá í stakk búin til að ljúka málum með þessum hætti.

Embætti ríkissaksóknara hefur unnið mjög gott starf við að leiðbeina ákærendum á grundvelli dómafordæma, en slíkar leiðbeiningar eru forsenda þess að ákærandi geti boðið brotamönnum að ljúka málum með sátt.

Það er mjög mikilvægt að íþyngja ekki dómstólum að óþörfu með refsimálum þar sem játning liggur fyrir þegar skýr fordæmi liggja fyrir um refsiþyngdina. Ég tel að það ætti að skoða þann möguleika að ákærandi geti boðið sakborningi að gangast inn á sátt, jafnvel um einhverja óskilorðsbundna fangelsisrefsingu, a.m.k. í þeim brotaflokkum þar sem flestum dómafordæmum er til að dreifa.

Það er rétt að benda á að allt frá árinu 2006 hefur verið í gangi tilraunaverkefni um sáttameðferð í opinberum málum. Í þeim tilvikum fengu ungir gerendur sem brotið höfðu af sér, þó ekki alvarlega, tækifæri til að komast aftur á rétta braut með því að mæta þolanda brotsins á fundi ásamt sérmenntuðum miðlara sem oftast var lögreglumaður. Á þeim fundi var brotamanni gerð grein fyrir því að hann hefði gert rangt og reynt að koma sáttum milli hans og þess sem brotið er gegn, þá gegn því að fallið yrði frá saksókn eða málinu frestað. Þetta tilraunaverkefni gaf góða raun og það er til skoðunar í ráðuneytinu hvort lögfesta eigi þetta úrræði.

Að þessu öllu sögðu tel ég sem sagt vel koma til greina að skoða þann möguleika sem fyrirspurnin lýtur að. Það er nefnilega nauðsynlegt að skoða alla möguleika til að létta af dómstólum landsins. Önnur leið er að fela lögreglustjórum frekari heimild til að ljúka málum með sátt og taka upp sáttamiðlun, eins og ég hef komið inn á, þegar um unga afbrotamenn er að ræða.

Ég vil nota þetta tækifæri til að greina frá því að ég hef óskað eftir tilnefningu frá ríkissaksóknara, réttarfarsnefnd og Lögmannafélagi Íslands í starfshóp sem er ætlað að gera tillögur að breytingum á opinberu réttarfari og réttarreglum því tengdum með það að markmiði að draga úr óþarfaumstangi og hraða málsmeðferð án viðbótarfjárveitinga. Það er í mínum huga ljóst að róttækra breytinga er þörf ef gera á refsivörslukerfinu kleift að afgreiða mál sem því berast. Við verðum að vera opin fyrir öllum tillögum, en við þurfum líka að standa vörð um réttaröryggi borgaranna.

Sú framtíðarsýn sem ráðuneytið vill stefna að er að sem flest einföld sakamál séu afgreidd því sem næst tafarlaust, án þess þó að slakað verði á kröfum um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.