138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

lögregluréttur.

207. mál
[15:22]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að nefna samfélagsþjónustu og önnur úrræði. Við erum í raun að tala um að halda óþarfaálagi frá dómstólum og líka fangelsum landsins. Ég held að það sé mjög brýnt þegar við stöndum frammi fyrir stórauknu álagi á dómskerfið og réttarvörslukerfið í heild sinni að réttarvörslukerfið veikist ekki eða ónýtist með því að einbeita sér að málum sem það í raun og veru á ekki að nota mikla krafta í. Einhvern tímann hefur verið sagt að það eigi að nota ákærur spari, þ.e. þegar virkilega er þörf á að draga menn fyrir dóm og ákæra þá. Það á ekki að nota ákærur í þeim tilgangi að refsa fyrir minni háttar brot ef aðrar leiðir koma til greina sem duga jafn vel. Ég held að það hljóti að vera meginmarkmiðið.

Að þessu sögðu verður það líka að vera skýrt að ef ákærendum verða veittar heimildir til að ljúka málum með sátt í ríkara mæli verði að vera mjög vel tryggt að hvergi verði gengið á réttindi sakborninga, og að mannréttinda þeirra verði gætt í hvívetna. Fyrirspyrjandi nefnir líka hraða málsmeðferð sem er eitt af einkennum réttarskipunar okkar. Það er mjög mikilvægt að búa þannig að dómstólunum að málsmeðferðin lengist ekki og úr verði mannréttindabrot.