138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

rannsókn sérstaks saksóknara.

265. mál
[15:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta innihaldsríka svar. Ég verð að segja, frú forseti, að fleiri ráðherrar mættu svara jafnítarlega og hæstv. dómsmálaráðherra gerði í svari sínu sem að mínu viti er að mestu tæmandi. Ég hlýt að taka undir þau orð hæstv. ráðherra að vinna verður að þessari rannsókn af árvekni, heiðarleika og dugnaði, eins og ráðherra minntist á áðan. Það er eðlileg krafa almennings að mjög vandlega verði farið ofan í þessi mál. Ég held að ekki muni gróa um heilt í íslensku samfélagi fyrr en almenningur fær á tilfinninguna að hér verði farið fram af vandvirkni.

Því langar mig að fylgja þessari fyrirspurn eftir með þeirri spurningu hvort nægir fjármunir séu nú þegar veittir til þessa málaflokks. Ég veit að íslenskt samfélag býr við fjárhagsleg þrengsli nú um stundir, en forgangurinn verður að vera m.a. á þessu sviði. Eins og ég gat um munu efnahagssárin vart gróa nema almenningur fái á tilfinninguna að hér hafi verið vandað eins vel til verka og hugsanlegt getur verið. Búum við jafn vel að rannsókninni og nokkur kostur er? Hafa nú þegar komið fram einhverjar efnislegar kvartanir frá rannsakendum í þá veru að meira fé þurfi, þurfi t.d. meiri aðstoð utan frá eða innan lands? Verður brugðist við þeim beiðnum eftir því sem þær koma? Hefur hæstv. ráðherra að einhverju leyti heimildir til að auka við fjármagn til þessa málaflokks?