138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

fatlaðir í fangelsum.

266. mál
[15:39]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem lýtur að því hver fjöldi fatlaðra sé í fangelsum, hver fötlunin sé og á hvern hátt sé komið til móts við sérþarfir fatlaðra í fangelsum.

Ég vil taka fram í upphafi að í fangelsum landsins vistast nú enginn líkamlega fatlaður einstaklingur. Hér á landi eru þó fjórir klefar þar sem hægt er að vista líkamlega fatlaða einstaklinga, einn klefi er í fangelsinu á Akureyri og hann er sérhannaður fyrir fatlaða, tveir eru á jarðhæð í fangelsinu á Kópavogsbraut þar sem aðgengi fatlaðra er tryggt og loks einn sérhannaður klefi fyrir fatlaða á Litla-Hrauni. Þessir sérútbúnu klefar eru nú í almennri notkun. Þeir hafa reyndar verið nýttir við afplánun vanfærra kvenna, þ.e. í Kópavogsfangelsinu, og þeirra fanga sem eiga við tímabundin veikindi að stríða. Það er komin ágætisreynsla af notkun hjólastóla í fangelsinu í Kópavogi þar sem annar þeirra tveggja klefa sem eru á jarðhæð hefur nýst við það að fangar hafa tímabundið þurft að vera í hjólastól vegna læknisaðgerða.

Það er rétt að geta þess að margir fangar eiga við geðræn vandamál að stríða og þeir njóta þá viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðan á afplánun stendur. Það er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins. Það hefur verið meðferð við vímuefnaneyslu fanga og hún hefur stóraukist, t.d. á Litla-Hrauni þar sem starfræktur er sérstakur meðferðargangur sem hefur gefið góða raun. Það er mjög brýnt að sá meðferðargangur leggist ekki af, heldur haldi áfram starfsemi sinni. Síðan ber að nefna einstaklinga sem eru ósakhæfir sökum geðsjúkdóma, þeir eru vistaðir á Sogni í Ölfusi. Sama gildir um einstaklinga með þroskahamlanir og geðfatlaða. Ef þeir eru ósakhæfir vegna greindarskorts eru þeir vistaðir á Sogni.

Í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu er núna frumvarp til breytinga á VII. kafla almennra hegningarlaga. Sá kafli laganna fjallar m.a. um öryggisráðstafanir. Í frumvarpinu er leitast við að skilgreina betur samspil einstakra úrræða fyrir ósakhæfa og beitingu þeirra þannig að skýrt sé við hvaða aðstæður beita eigi úrræðunum á borð við þvingaða vistun á stofnun og hvenær beita megi vægari úrræðum, svo sem eftirliti, þar á meðal rafrænu eftirliti.

Aðrir fangar afplána dóma sína á vegum Fangelsismálastofnunar. Fangelsismálastofnun tekur á móti föngum án þess að fá upplýsingar um hugsanlegar þroskahamlanir eða þroskafrávik. Ef vísbendingar vakna um slíkt, sem getur t.d. gerst í móttökuviðtali, er viðkomandi beint til sérfræðinga eftir því sem tilefni er til. Stofnunin gerir á hinn bóginn ekki sérstakar úttektir á þroska fanga í upphafi afplánunar og því er ekki til að dreifa neinu yfirliti yfir þroskahamlanir fanga í íslenskum fangelsum.

Rétt er að benda á að samkvæmt 22. gr. laga um fullnustu refsingar skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur fanga segja til um. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sér heilbrigðisráðuneytið um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

Það má segja að heilbrigðisþjónusta í fangelsum sé almennt góð, sérstaklega á suðvesturhorninu, á Suðurlandi og á Akureyri. Fjarlægðin við Kvíabryggju gerir það að verkum að aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu er ekki mikið í því fangelsi en heilsugæslan í Grundarfirði hefur sinnt heilbrigðisþjónustu á Kvíabryggju með ágætum.

Þá ber að geta þess að þrír sálfræðingar, tveir félagsráðgjafar og einn félagsfræðingur starfa hjá Fangelsismálastofnun og sinna öllum fangelsum landsins. Helst hefur verið kvartað undan því af hálfu fanga að aðgengi að sérfræðingum stofnunarinnar sé ekki nægjanlegt. Fjárheimildir stofnunarinnar hafa hins vegar ekki gefið svigrúm til að fjölga sálfræðingum og félagsráðgjöfum.

Þegar kemur að þeim orðum sem fyrirspyrjandi viðhafði í fyrirspurn sinni, sem er mikið umhugsunarefni, tel ég að fangelsisyfirvöld ættu vitaskuld að hafa stefnu á sérhverjum tíma í þessum málum, stefnu sem einmitt stuðlar að því að við gætum allra mannréttinda í hvívetna og meðhöndlum ekki fanga sem annars flokks borgara. Það er mjög mikilvægt.