138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

fatlaðir í fangelsum.

266. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta ágæta svar hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um fjölda fatlaðra í fangelsum landsins. Nú er það svo, og vitna ég þar til eftirgrennslunar minnar, að mjög erfitt er að áætla fjölda fatlaðra í fangelsum á Íslandi hverju sinni vegna þess að þetta er breiður flokkur fólks, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, fólk sem býr við þroskahömlun, þroskafrávik, geðsjúkdóma og líkamlega fötlun. Enn vitna ég til tölu minnar um að á þessu árabili, 2004–2009, hafi að sögn sálfræðinga innan Fangelsismálastofnunar verið í þessum fangelsum eitthvað um 35 einstaklingar, þ.e. sex á ári, sem hafa vel að merkja í engin önnur hús að vernda, ef svo má að orði komast, þegar kemur að refsivist. Þessir einstaklingar eru margir hverjir á mörkum þess að vera sakhæfir. Það er aðeins einn staður á Íslandi fyrir ósakhæfa glæpamenn, á Sogni, en enginn annar staður á Íslandi er fyrir karla og konur sem eru á mörkum þess að teljast sakhæf vegna þroskahömlunar, þroskafrávika eða annarra sjúkdóma en hin hörðu fangelsi.

Ég hvet því ráðherra þegar hugað verður að nauðsynlegum og mikilvægum endurbótum á fangelsismálum Íslendinga að mjög verði hugað að þessum málaflokki, að öllum þeim föngum sem einnig eiga við atferlistruflanir að stríða, þroskahömlun og þroskafrávik, verði ekki komið fyrir á einum og sama staðnum heldur verði hugað sérstaklega að sérþörfum þessa fólks eins og allra annarra Íslendinga (Forseti hringir.) þegar kemur að fangelsismálum.