138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

kostnaður vegna starfa erlendra sérfræðinga í Seðlabankanum.

264. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég held að það liggi alveg fyrir að þessir þrír einstaklingar voru valdir til starfa fyrir Seðlabankann vegna þess að við töldum að þeir hefðu eitthvað fram að færa fyrir íslenskt samfélag.

Ég verð nú að segja að mér fannst sú stutta athugasemd sem kom frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur einkar einkennileg. Ef það er ný starfsregla sem Samfylkingin vildi taka upp og hv. þingmaður vildi tala fyrir innan síns flokks þá mundi Framsóknarflokkurinn að sjálfsögðu taka tillit til þess að það þyrfti að ræða sérstakar fjárveitingar til þeirra sem við skipum í stjórnir og nefndir í gegnum Alþingi.

Hins vegar ítreka ég að mér fannst vanta í fyrirspurnina sem kom hérna fram að spyrja um heildarkostnaðinn við aðra starfsmenn sem hafa verið skipaðir. Í þeim tilvikum var það að vísu framkvæmdarvaldið sem fer — ég held það sé Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið þannig að það er spurning hvort við ætlum að fela framkvæmdarvaldinu enn þá meira vald yfir Alþingi en það hefur haft hingað til.

Ég fagna því að það séu komin fram svör við því hver þessi kostnaður hefur verið. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði að þegar við veljum fólk inn í jafnmikilvægar stofnanir og Seðlabankann getur verið gott fyrir íslenskt samfélag að leita út fyrir landsteinana og koma með þá sérþekkingu sem þessir einstaklingar hafa til þess að aðstoða okkur við efnahagskreppuna.

Að auki óska ég eftir því að ráðherra svari því sem ég spurði um í minni fyrri ræðu, hvort Seðlabankinn hafi skrifað sams konar bréf og þeir skrifuðu til ráðuneytisins varðandi Daniel Gros og fleiri aðila um (Forseti hringir.) ferðakostnað og annað vegna Sveins Haralds Öygards og Anne Sibert.