138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnsýsla ráðherra.

[10:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nýverið hefur hæstv. umhverfisráðherra neitað að samþykkja fyrirliggjandi skipulagsdrög vegna virkjana á Þjórsársvæðinu. Af því tilefni vil ég fara með henni yfir það að gjaldskrá í Sveitarfélaginu Ölfusi var samþykkt árið 2004 þar sem tekin er til gjaldskrá sveitarfélagsins sem síðan var staðfest af ráðuneyti sveitarstjórnarmála þar sem kveðið er á um heimild til greiðslna vegna skipulagsbreytinga, m.a. skipulagsbreytinga á svæðinu. Í apríl 2006 gerði þáverandi R-listi með þátttöku Vinstri grænna og þáverandi borgarfulltrúa, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, 45 millj. kr. samning til ársins 2012 við Sveitarfélagið Ölfus um greiðslur, m.a. vegna vinnu við breytingar á skipulagsmálum. Hæstv. umhverfisráðherra sat síðar m.a. í varastjórn og stjórn Orkuveitunnar en gerði engar tillögur um breytingar á þessum samningi eða að hann yrði afturkallaður. Með tilliti til úrskurðar hennar áður spyr ég hana hvort hún telji þá skipulag á þessu svæði ólöglegt.

Fyrir liggur að greitt hefur verið fyrir gerð svæðisskipulags vegna háhitasvæða í Þingeyjarsýslu þar sem sveitarhreppar hafa fengið greiðslur frá m.a. Landsvirkjun vegna skipulagsvinnu á þessum svæðum. Þegar þessi mál koma á borð umhverfisráðherra, þ.e. að úrskurða um aðalskipulag eða svæðisskipulag á þessum svæðum í framtíðinni, má reikna með því að ráðherra muni fara að eigin fordæmi varðandi úrskurðinn um neðri hluta Þjórsár og hafna á sömu forsendum (Forseti hringir.) afgreiðslu mála fyrir norðan?