138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur fyrir fyrirspurnina. Vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Keflavíkurflugvelli vil ég segja: Ef þetta er svona hagkvæmt, af hverju gerir einkaframtakið þetta þá ekki bara sjálft? Af hverju þarf til að koma félag sem er 100% í eigu ríkisins, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, til að leggja fé í að gera þetta? Ef þetta er svona hagkvæmt, af hverju gerir maðurinn þetta ekki sjálfur?

Ég tel að þessi viðskiptahugmynd sé engu betri nú en hún var á árinu 2007 þegar hún gekk ekki upp. Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa sýnt sig að vera mjög vel samkeppnisfær um aðgerðir sem hefur verið boðið í gagnvart Færeyingum, Grænlendingum og einnig Norðmönnum. Norðmenn hafa hins vegar (Forseti hringir.) minni áhuga á því að koma hingað, og hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna ferðakostnaðarins. Það er hagkvæmt fyrir Grænlendinga og Færeyinga að koma hingað en ekki fyrir aðra. Þess vegna skil ég ekki þetta viðskiptamódel. (Forseti hringir.) Ég held að það gangi einfaldlega ekki upp.