138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

undirbúningur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 8. janúar 2010 samþykkti Alþingi lög um þjóðaratkvæðagreiðslur að undangenginni synjun forseta Íslands á lögum nr. 1/2010. Dómsmálaráðuneytið hefur nú í samráði við landskjörstjórn gefið út að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram þann 6. mars nk. Miklar umræður hafa verið í þjóðfélaginu um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar stjórnarflokkanna verið með yfirlýsingar um að ekki verði af atkvæðagreiðslunni. Vilji Framsóknarflokksins er skýr í þessu efni, þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram enda er málið í þeim stjórnskipulega farvegi.

Því langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Er búið að uppfylla 2. gr. laganna um að fullvinna kjörskrár fyrir kosninguna? Þær skulu miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.

Er búið að undirbúa sveitarstjórnir um land allt í þeim tilgangi að birta kjörskrá viku fyrir kjördag? Þær eiga að liggja frammi þá viku öllum til sýnis.

Er búið að prenta kjörseðla fyrir allar kjördeildir landsins og er búið að senda þá út til kjörstjórna í hverju kjördæmi?

Í 5. gr. laganna segir að viku fyrir kjördag skuli dómsmálaráðuneytið birta spurninguna með auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Verða þessar auglýsingar birtar nk. laugardag? Þá verður vika til kosninga.

Lagastofnun Háskóla Íslands og dómsmálaráðuneytið kynntu hlutlausan bækling um þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrir allsherjarnefnd fyrr í þessum mánuði. Sá bæklingur átti að berast hverju heimili í landinu 10 dögum fyrir atkvæðagreiðsluna. Er búið að dreifa þessum bæklingi á póststöðvar og berst hann landsmönnum nú fyrir helgina?