138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Svæðisútvörpin hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem staðbundnir miðlar, lengst á Norðurlandi þar sem það hefur verið starfrækt í hátt í 30 ár. Þau sinna hlutverki sem enginn annar sinnir og gæti ekki sinnt. Nú hafa yfirmenn Ríkisútvarpsins tekið þá ákvörðun að leggja niður þessar svæðisbundnu útsendingar og tekur sú ákvörðun gildi um næstu mánaðamót. Þessar ráðstafanir hafa sætt mikilli andstöðu um land allt. Til að mynda segir í yfirlýsingu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi:

„Svæðisútvörp hafa aukið á samkennd íbúa fjórðunganna, en jafnframt verið miðlar sem fjallað hafa um mismunandi áherslur milli svæða og opnað á umræðu um fjölmörg hagsmunamál íbúanna. Umfram allt hefur verið til staðar umfjöllun um hið fjölþætta, jákvæða starf, sem unnið er í öllum fjórðungum og sýnileiki byggðarlaganna því verið meiri en hægt er að sjá að verði eftir breytinguna. Stjórn RÚV er hvött til þess að sjá til að undið verið ofan af framangreindri ákvörðun og séð til þess að hún verði dregin til baka. Einnig er skorað á ráðherra mennta- og menningarmála að láta málið til sín taka.“

Þessum niðurskurði var einnig mótmælt á Ísafirði en þar mótmæltu um hundrað manns niðurskurði 30. janúar sl. Þar var lesin ályktun fyrir hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra sem þá voru staddir á Ísafirði. Þar vísuðu mótmælendur til öryggis- og menningarhlutverks RÚV og skoruðu á menntamálaráðherra að endurskoða niðurskurðartillögurnar.

Það undarlegasta varðandi þessar tillögur er að svæðisútsendingarnar skulu skornar niður í nafni sparnaðar. Í raun er afar auðvelt að rökstyðja að svæðisstöðvarnar séu afar ódýr rekstrareining. Í opinberri skýrslu um RÚV frá árinu 2004 kemur fram að frá árinu 2000 hafi framleiðsla svæðisstöðvanna aukist um 60%, sumpart vegna aukins fréttaflutnings af landsbyggðinni, sérstaklega í sjónvarpi, en ekki síður vegna aukinnar starfsemi Rásar 2 á Akureyri. Rekstrarkostnaður á hverja mínútu af dagskrá eða fréttaefni frá svæðisstöðvunum var frá þessum tíma 1.150 kr. að jafnaði. Á móti kemur að hver mínúta morgunvaktarinnar í Efstaleiti kostaði þá að jafnaði 1.700 kr. og hver mínúta af útvarpsfréttum kostaði á þeim tíma 3.100 kr. Það liggur líka fyrir að það hlýtur að vera mun dýrara að sækja efni um langan veg sem oft þyrfti að gera, t.d. þegar stórslys verða, náttúruhamfarir eða annað sem menn komast ekki hjá að sinna.

Fram hefur komið að áætlaður sparnaður að teknu tilliti til auglýsingatekna sé 31 millj. kr. Það er afar lítil fjárhæð með tilliti til þess að Ríkisútvarpið fær 3–3,5 milljarða kr. í rekstrartekjur. Svo spyr maður sig: Ef losna á t.d. við húsnæði á Egilsstöðum og Akureyri, ráðstafanir sem virðast í fljótu bragði afar vanhugsaðar, hvað þá með húsnæði Ríkisútvarpsins við Efstaleiti, húsnæði sem margir fréttamenn hafa lýst yfir að sé afar óhentugt?

Ég viðurkenni líka að ég óttast mjög þau áform að í stað svæðisbundinna sendinga í útvarpi verði sendur út landsbyggðarfréttatími virka daga í landsútvarpi og svo með haustinu verði sendur út vikulegur þáttur í sjónvarpi með fréttum af dægurefni af landsbyggðinni. Ég get ekki betur séð en að þarna eigi að búa til vettvang til að fjalla sérstaklega um fólkið sem býr ekki í Reykjavík en það fólk á ekkert annað sameiginlegt en að búa ekki á því svæði. Í mínum huga er fráleitt að búa til þennan þjóðfélagshóp og gera hann að útvarps- og sjónvarpsefni. Ég leyfi mér að kalla þetta kynþáttahyggju eða einhvers konar aðskilnaðarstefnu. Við erum öll Íslendingar og í landsútvarpi á efni af öllu landinu að eiga jafnan aðgang og keppa jafnt um útsendingartíma.

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið hefur lögbundnu hlutverki að gegna. Það fær um 3–3,5 milljarða kr. frá skattgreiðendum, sem nemur um 10 millj. kr. á dag. Það gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki og menningarhlutverki. Ef þetta öryggishlutverk er úr sögunni, ef stuðningur við innlenda dagskrárgerð er úr sögunni, ef RÚV getur ekki lengur sinnt sínum lágmarksskyldum um jafnræði gagnvart skattborgurum um allt land, hvert erum við þá komin (Forseti hringir.) með það fyrirtæki? Ég beini spurningum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Ef þetta er raunin, er þá ekki tímabært að taka rekstrarákvörðun RÚV til gagngerrar endurskoðunar? Eigum við ekki að horfast í augu við þá staðreynd (Forseti hringir.) að hugsanlega sé RÚV í því formi sem það er í í dag ófært um að sinna sínu lögbundna og mikilvæga menningar- og öryggishlutverki? (Forseti hringir.) Svo beini ég einnig þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Ætlar ráðherra mennta- og menningarmála að láta málið til sín taka?