138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni, ekki aðeins stöðu Ríkisútvarpsins heldur sérstaklega þessum þætti Ríkisútvarpsins og starfsemi þess, þjónustu þess við landið allt. Auðvitað hefur verið töluverð umræða um þann niðurskurð á opinberu fjármagni til Ríkisútvarpsins sem boðaður var og samþykktur í fjárlögum fyrir árið 2010, en sú umræða hefur fremur snúist um kaup á efni af sjálfstæðum framleiðendum og þetta efni kannski ekki fengið nægilega athygli í þeim umræðum. Ég þakka hv. þingmanni því fyrir að vekja máls á þessu.

Til að skýra aðeins hina almennu stöðu er auðvitað gerð umtalsverð hagræðingarkrafa á Ríkisútvarpið í fjárlögum þessa árs, 10% hagræðingarkrafa. Framlag hins opinbera til RÚV ohf. lækkar úr 3.575.000.000 kr. í 3.218.000.000 kr. á milli áranna 2009 og 2010, um sem nemur 357 millj. kr. Því liggur auðvitað fyrir, og ég held að enginn deili um það, að Ríkisútvarpið ohf. þarf að draga saman í rekstri.

Ég vil þó vekja athygli á því að að sjálfsögðu hefur Ríkisútvarpið ohf. einnig auglýsingatekjur, þ.e. tekjur af auglýsingasölu, sem voru á bilinu 1. september 2008 til 31. ágúst 2009 1.246.000.000 kr. Hins vegar eru ýmsar aðrar skyldur sem hvíla á Ríkisútvarpinu sem tengjast m.a. lífeyrisskuldbindingum og öðru þannig að ekki rennur þetta allt til dagskrárgerðar.

Það var ljóst að RÚV þurfti að grípa til aðgerða þó að það fái verulega fjárhæð frá hinu opinbera og í raun er hún hærri en það sem hefur innheimst af útvarpsgjaldinu svokallaða, u.þ.b. 400 millj. kr. hærri miðað við áætlun fyrir árið 2010.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem útvarpsstjóri hefur gefið, eins og hv. þingmaður kom inn á, stendur ekki til að loka starfsstöðvum RÚV á landsbyggðinni en svæðisbundnar útsendingar verði lagðar niður. Komið hefur fram að þær aðgerðir eigi að skila 31 millj. kr. í hreinan sparnað og hefur þetta verið sett fram undir þeim formerkjum að nýjar vinnuaðferðir verði teknar upp samhliða niðurskurðinum sem leiðir til þess að hlutur frétta af landsbyggðinni eigi að aukast, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Hins vegar liggur líka fyrir að svæðisbundin þjónusta minnkar að sjálfsögðu með því að leggja niður þessar svæðisbundnu útsendingar og sjónarmið manna um þetta eru ekki eins, getum við sagt. Maður skynjar ákveðinn mun milli höfuðborgar og landsbyggðar þar sem landsbyggðarfólk hefur til að mynda bent á nauðsyn þess að fjalla um mál á þessum vettvangi sem eru svæðisbundin en eiga kannski ekki endilega erindi til landsins alls.

Á þetta allt á eftir að reyna og af því að hv. þingmaður spyr þá sem hér stendur hvort ætlunin sé að skoða þetta sérstaklega eða beita sér sérstaklega í þessu máli, liggur fyrir að ég hef nú tekið til endurskoðunar þann samning sem er í gildi milli mennta- og menningarmálaráðuneytis annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Sá samningur komst á þegar Ríkisútvarpinu var breytt í ohf. Það á eftir að móta þennan samning og þær kröfur sem hið opinbera setur fram á hendur RÚV. Ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem við munum taka upp við endurskoðun á þjónustusamningi, við munum bæði ræða við stjórnendur Ríkisútvarpsins og hina þingkjörnu stjórn Ríkisútvarpsins.

Í 3. gr. núgildandi samnings kemur fram að Ríkisútvarpið skuli bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar, þar með talið fréttir, menningu og afþreyingu og listir til að þjóna betur íbúum á landinu öllu. Með ákvæði þessarar greinar sem er í gildandi samningi kemur fram skýr afstaða til þess að svæðisbundnar útsendingar séu mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Það liggur því algjörlega fyrir að við þurfum að fara yfir þetta og ræða það, bæði á hinum pólitíska vettvangi og líka við RÚV, hvort að við eigum að halda þessu áfram eða ekki.

Það eru fjórar starfsstöðvar á landsbyggðinni og að auki fréttaritarar að störfum víða um landið. Af því að hv. þingmaður nefndi kostnað við þetta vil ég líka nefna að í þeirri skýrslu sem gerð var 2004 kemur fram að árið 2004 hafi svæðisstöðvarnar skilað 270–317 innslögum að jafnaði á mánuði, samtals 115–200 klukkustundum af dagskrárefni og fréttum á mánuði. Þær hafa auðvitað gegnt mikilvægu hlutverki við almenna dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Ég held að þetta sýni að það er mikið tilefni til þess að fara yfir þjónustusamninginn. Af því að hv. þingmaður nefndi líka rekstrarformið þyrfti sú umræða kannski meiri tíma en ég held að það skipti líka máli að við metum hvernig til hefur tekist með rekstrarformið. Það liggur fyrir að út frá þeim Evrópureglugerðum sem (Forseti hringir.) við höfum gengist undir er okkur þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að hefðbundinni ríkisstofnun. Á Norðurlöndunum eru ríkisútvörpin opinber hlutafélög eða sjálfseignarstofnanir. Ég tel mikilvægt að við tökum þá umræðu samhliða endurskoðun þjónustusamningsins.