138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Mér, eins og flestum öðrum landsmönnum, þykir vænt um RÚV þótt ég sé ekki alltaf sammála því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir þar á bæ.

Mér finnst mikilvægt að RÚV geti framfylgt lögbundnu hlutverki sínu með sóma eins og það er sett fram í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið en þar er meginhlutverk þess m.a. skilgreint að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Nú hefur ráðstöfunarfé stofnunarinnar verið skert um 270 milljónir. Því er augljóst að skera þarf niður og bitnar það illa á því sem síst skyldi, t.d. íslenskri kvikmyndagerð. Vandi RÚV er keimlíkur vanda þjóðarinnar. Stofnunin er gríðarlega skuldsett en skuldir eru að miklu leyti til komnar vegna lífeyrisskuldbindinga stofnunarinnar. Fjármagnskostnaður RÚV á síðasta rekstrarári var tæpur milljarður, fé sem annars væri hægt að verja í íslenska dagskrárgerð og munar þar um minna.

RÚV á líka eignir. Auk allra þeirra ómetanlegu menningarverðmæta sem þar hafa skapast og þar eru geymd á stofnunin m.a. dýrmæta fasteign að Efstaleiti 1 sem samkvæmt fasteignamati er metin á tæpa 4 milljarða en bókfært verð eru rúmir 3 milljarðar. Þetta hús er að mörgu leyti íþyngjandi fyrir RÚV og hentar núverandi starfsemi illa. Með því að selja dýrmæta fasteign og koma útvarpi allra landsmanna fyrir í minna og hentugra húsnæði mætti minnka verulega skuldaskaflinn og losa RÚV úr þessum álagafjötrum. Ég hvet hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að skoða þennan möguleika með stjórn og stjórnendum RÚV með opnum huga.