138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu um RÚV. Þetta er önnur af tveimur mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar og þinginu er skylt að fjalla um þessa stofnun með afgerandi hætti.

Niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar var að skera niður framlög til Ríkisútvarpsins í haust. Sá meiri hluti getur ekki vikið sér undan því. Útvarpsstjóri kom ásamt formanni stjórnar RÚV á fund fjárlaganefndar og lýsti því nákvæmlega hvernig skorið yrði niður á stofnuninni ef hún fengi ekki þau framlög sem til þyrfti. Þetta er einfaldlega eðlilegt framhald af því þannig að við skulum hafa hlutina á hreinu með það. Útvarpsstjóri hefur sent mér bréf um þetta mál og það er ágætt að hafa til upprifjunar að þar kom einmitt skýrt fram að svæðisstöðvarnar yrðu skornar niður þannig að meiri hluti fjárlaganefndar vissi svo sem að þetta var í vændum.

Þetta er pólitísk forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd og þar við situr. Það er aftur á móti til vansa, tel ég, að skorið sé niður með þessum hætti og ég hefði viljað sjá hlutina gerða öðruvísi. Sú forgangsröðun þarf að vera að landsbyggðin fái fréttir af sínu svæði, það finnst mér algjört grundvallaratriði. Með tilliti til annarra fjölmiðla og stöðu annarra fjölmiðla í landinu er hlutverk Ríkisútvarpsins mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Upplýsingahlutverk RÚV til allra landsmanna og frá öllu landinu má ekki glatast.

Við erum tiltölulega nýbúin að kjósa hér í stjórn Ríkisútvarpsins með mjög einkennilegum hætti. Ég hef ekki hugmynd um hver stefna þeirrar stjórnar er eða þeirra manna sem sitja þar í stjórn þannig að sú pólitískt skipaða stjórn virðist ekki virka sem skyldi. Ég tel að hér þurfi að fara í gagngera endurskoðun á einmitt hlutverki Ríkisútvarpsins með því sérstaklega að veita athygli því hlutverki sem stofnunin gegnir í lýðræðislegri umfjöllun. Þegar samfélagið er í dag (Forseti hringir.) eins og það er skiptir mjög miklu máli að landsmenn séu upplýstir með eðlilegum hætti um gang mála til þess að (Forseti hringir.) lýðræðið sjálft …