138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[11:52]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég styð málið, en set fyrirvara við álit nefndarinnar, þar sem frestun á nauðungarsölu er engin lausn á þeim vanda sem blasir við skuldsettum heimilum á Íslandi. Meginástæða þess að við frestum nauðungarsölum hér í dag í þriðja sinn er einmitt sú að úrræði stjórnvalda hafa ekki dugað til. Það staðfestir jafnframt könnun ASÍ þar sem 80% segja að úrræðin hafi ekki dugað til.

Við sjálfstæðismenn höfum kallað eftir frekari aðgerðum í þessum efnum og erum tilbúnir til að leggja okkar af mörkum til að leysa þennan vanda og aðstoða ríkisstjórnina sem er greinilega í brýnum vanda við að leysa þessi mál. Frestun er engin lausn og ég kalla eftir frekari úrræðum fyrir skuldsett heimili.