138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[11:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um nauðungarsölur og enn eina frestunina á því að þær fari fram sem endurspeglar í raun úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Það er eitt ár síðan við framsóknarmenn mæltum fyrir efnahagstillögum á vettvangi Alþingis um að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki í landinu. Þáverandi minnihlutastjórn sem sat í skjóli Framsóknarflokksins hunsaði algjörlega þær tillögur sem við komum með þá, en ein af þeim var jú sú að leiðrétta lán heimilanna miðað við 1. janúar árið 2008 eða áður en hrunið átti sér stað. Síðan hafa úrræði ríkisstjórnarinnar verið svo takmörkuð, eins og hv. þm. Erla Ósk Ásgeirsdóttir benti réttilega á áðan, að í könnun Alþýðusambands Íslands hefur komið í ljós að 80–90% af þeim sem þiggja þessa aðstoð ríkisstjórnarinnar í dag segja að hún dugi einfaldlega ekki til. Hvert er svar hinnar norrænu velferðarstjórnar? Jú, það á að fresta vandanum enn einu sinni. Það á að fresta öllum nauðungaruppboðum til 31. október. Hvað gerist á þeim tíma? Jú, fólk getur verið áfram í húsnæði sínu en dráttarvextir tikka á skuldum þessara heimila. Dráttarvextir þegar stýrivextir Seðlabankans eru í hæstu hæðum á alþjóðlegum mælikvarða. Er þetta einhver lausn fyrir skuldug heimili? Hvaða framtíðarsýn endurspeglast í þessari tillögu ríkisstjórnarinnar?

Ég er á þessu máli, reyndar með fyrirvara, en ég vildi að ég hefði ekki þurft að vera á þessu máli, vegna þess að ef ríkisstjórnin hefði farið í einhverjar raunverulegar aðgerðir til að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki, stæðum við ekki í þessum sporum. Hvar er réttlætið? Hvar er réttlætið sem ríkisstjórnin boðar í öllu sínu máli? Er það eitthvert réttlæti að þeir sem stóðu í stafni útrásarinnar hafa fengið ekki milljónir, ekki hundruð milljóna heldur tugi milljarða króna afskrifaða? Svo hafa menn svitnað á vettvangi þingsins þegar við tölum um að það muni kosta eitt til tvö hundruð milljarða að leiðrétta skuldir heimilanna. Á meðan geta menn farið í einhverja einstaka aðgerð þar sem verið er að afskrifa skuldir og koma mönnum undan persónulegum ábyrgðum kannski upp á 40–60 milljarða kr. Halda menn að einhver sátt náist í þessu samfélagi ef hinn venjulegi vinnandi maður, hin venjulega fjölskylda, fær ekki leiðréttingu sinna mála? Í ljós hefur komið, þvert á það sem ríkisstjórnin lofaði, að þau úrræði sem eru í boði í dag duga einfaldlega ekki til.

Við framsóknarmenn töluðum fyrir því að koma til móts við skuldug heimili með almennum aðgerðum, þannig að auðveldara væri að glíma við vanda þeirra sem hvað verst standa í samfélaginu. Það er dapurlegt að verða vitni að því að stjórnmálaflokkar á vettvangi þingsins, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Hreyfingin, hafa komið fram með tillögur í efnahagsmálum, mörg góð mál, en af því að þessir stjórnmálaflokkar eru í minni hluta á þinginu er ekkert hlustað á þær tillögur sem þeir hafa komið fram með.

Hvar eru þessi samræðustjórnmál? Hvar er þessi samstaða sem allir kalla eftir?

Ég hef oft borið það saman að hjá mörgum stærstu sveitarfélögum í landinu, sem glíma mörg hver við gríðarlega erfið úrlausnarverkefni, vinna meiri hluti og minni hluti saman en sandkassaleikurinn á vettvangi þingsins heldur áfram. Það eru bara Steingrímur J. Sigfússon hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem skulu ráða þessu. Alveg sama hvaða tillögur framsóknarmenn koma með, sjálfstæðismenn, eða þingmenn Hreyfingarinnar. Nei, við skulum fara okkar fram og leggja fram hér í þriðja skipti frestunarfrumvarp á nauðungarsölu heimila í landinu.

Hver verður staðan eftir fimm mánuði eða sex þegar þetta frumvarp hefur ekki lengur stoð? Á þá að fresta þessu aftur? Hver verður höfuðstóll skulda þessara heimila orðinn þegar við horfum á dráttarvexti tikka á þessum skuldum á hverjum einasta degi?

Þetta er grafalvarlegt mál, frú forseti, og í raun og veru held ég að þetta mál sem við ræðum hér, sem er reyndar nauðsynlegt vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, sýni okkur að samstöðu er þörf til að koma með almennilegar tillögur til að mæta skuldavanda heimilanna. Nú er það viðurkennt að við stofnun nýju bankanna myndaðist heilmikið svigrúm til að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja. Gert er ráð fyrir gríðarlegum afskriftum í þeim efnum. Þessu var þráfaldlega neitað þegar við framsóknarmenn reyndum að benda á að þetta svigrúm væri fyrir hendi, þegar við komum fram með tillögu okkar um að réttast væri að færa öll húsnæðislán landsmanna yfir í Íbúðalánasjóð ásamt tilteknu afskriftarhlutfalli og leiðrétta þannig skuldir heimilanna með einni aðgerð. Ef það hefði verið gert þá stæðum við ekki í þessum sporum í dag. Ég fullyrði það. En hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp og andmælti okkur á sínum tíma og hæstv. forsætisráðherra gerði það líka. Nei, frú forseti, við höfum talað fyrir daufum eyrum í á annað ár.

Þótt mikill tími hafi farið í að ræða Icesave-frumvarpið á þinginu er þetta stefnumál Framsóknarflokksins enn í fullu gildi. Það væri ákaflega ánægjulegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra svara því hvort hann telji að einhver sátt muni nást í þessu samfélagi þegar við horfum upp á það að til stendur að veita einstaka mönnum jafnvel tugi milljarða króna í afskriftir, losa þá undan persónulegum ábyrgðum þannig að þeir geti haldið störfum sínum áfram. Síðan á ekkert að gera fyrir hina venjulegu fjölskyldu sem stritar við það um hver mánaðamót að reyna að standa undir skuldbindingum sínum. Á meðan hafa launin lækkað. Skattar hafa hækkað hjá þessari ríkisstjórn. Lán og greiðslubyrði af þeim hafa líka hækkað. Á í raun og veru ekki að gera neitt að koma til móts við heimilin með almennum aðgerðum? Eða eiga einhverjir sérstakir aðilar að fá gríðarlegar afskriftir á meðan hin venjulega fjölskylda þarf að berjast og strita til að standa undir skuldbindingum sínum, sem margar þeirra geta ekki núna? Hvað gerist í slíku ástandi? Jú, yfirdráttarheimildin eykst og eykst. Hvað eru vextir á yfirdráttarheimildum háir í dag? 15–17%. Hvar endar þetta? Við erum að samþykkja frestun á nauðungarsölu þar sem dráttarvextir munu tikka á skuldir þessa fólks á hverjum einasta degi fram á haust.

Það er ekkert óeðlilegt við það að Hagsmunasamtök heimilanna hrópi til ríkisstjórnarinnar eftir aðgerðum, kalli á aðgerðir. Það er ekkert óeðlilegt, vegna þess að vandinn hér úti fer stigvaxandi. Menn verða að horfast í augu við það. Við framsóknarmenn báðum um það síðasta sumar og líka í haust að við settumst saman til að ræða þessi vandamál. Erum við sammála um að vandamálið sé til staðar? Já, við erum sammála um það. Erum við sammála um að skuldir heimilanna séu í heild sinni þeim ofviða eins og sakir standa? Já, við erum sammála um það. Af hverju getum við þá ekki, forustumenn Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Hreyfingar, sest niður eins og fólk og farið yfir þennan vanda og reynt að gera tilraun til að móta einhverja sýn á það hvernig við komum til móts við heimilin og fyrirtækin? Nei, það má ekki, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir skulu bara ráða þessu. Rétt eins og þau réðu för í Icesave-málinu.

Hvernig var það þegar við náðum að setjast niður og ræða saman þvert á flokka í því máli, eins og við í minni hlutanum höfðum beðið um í á annað ár? Jú, málstaður Íslands hefur batnað. Þegar við stöndum saman erum við sterkari. Saman erum við sterk en sundruð erum við veik. Ef þetta hrun, sem var ekki bara efnahagslegt heldur líka siðferðilegt, á að hafa kennt okkur eitthvað hlýtur það að vera ákall um ný vinnubrögð, að 34 manna þingmeirihluti fari ekki fram með alræði og 29 þingmenn sitji hér, leggi fram tillögur í efnahagsmálum og fái engin viðbrögð við þeim.

Nei, frú forseti, þessu ástandi verður að linna og það er ekki boðlegt að heimilin í landinu þurfi að horfa upp á það að við frestum vandanum sí og æ á vettvangi þingsins og ekki bóli á neinum tillögum sem mark er takandi á og taka heildstætt á vandanum. Nei, í stað þess eru endalausar frestanir á vandanum sem er mjög alvarlegt mál. Hv. formaður nefndarinnar eða framsögumaður sagði hér áðan að ríkisstjórnin ætlaði að vinna endalaust að skuldamálum heimilanna. Ég vona að það þýði ekki að þessi mál verði bara endalaust til skoðunar og ekkert gert.

Mjög brýnt er að við horfumst í augu við vandann og að við Íslendingar fáum þau stjórnvöld sem við eigum skilið, fólk sem þorir að taka á vanda þjóðarinnar, heimilanna og fyrirtækjanna. Í ljósi þess að stýrivextir Seðlabankans munu hafa veruleg áhrif á þá dráttarvexti sem leggjast á heimilin, er eðlilegt að við spyrjum hver kostnaður heimilanna verður vegna þeirra. Af hverju í ósköpunum erum við nú í dag þrátt fyrir gjaldeyrishöftin með hátt í 10% stýrivexti, 9,5% stýrivexti? Ég mundi skilja að þeir væru háir ef engin höft væru, en höftin eru fyrir hendi. Hvað þýða þessir 9,5% stýrivextir sem eru einir þeir hæstu í heimi? Jú, heimili hér eru meðal skuldugustu heimila á byggðu bóli og atvinnulífið er líka skuldum vafið. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að vaxtakostnaður heimilanna um hver einustu mánaðamót er miklu, miklu hærri en hann þyrfti að vera, eins hjá atvinnulífinu.

Hvað þýða 9,5% stýrivextir fyrir uppbygginguna hér, fjárfestingu í atvinnulífinu? Það er miklu betra fyrir fjármagnseigendur að leggja þessa peninga inn á bók og fá þar frábæra ávöxtun. Það er alveg skiljanlegt. Ef stýrivextirnir væru lægri þyrftu heimilin að borga lægri upphæðir í vaxtakostnað um hver mánaðamót. Það sama má segja um fyrirtækin. Menn mundu kannski fjárfesta í atvinnulífinu á ný, svona loksins.

Frú forseti. Við framsóknarmenn köllum eftir samstöðu og samvinnu hér á þingi. Við höfum oft beðið um það. Við höfum oft leitað eftir því. Við höfum lagt fram efnahagstillögur okkar eins og aðrir þingflokkar stjórnarandstöðunnar. Því miður hafa þær ekki verið skoðaðar að neinu marki enn og menn hafa verið ansi fljótir að henda þeim út af borðinu. Þessum vinnubrögðum verður að ljúka ef við ætlum að koma okkur á fæturna á ný. Ég hef fulla trú á því að það sé hægt, en það gerist ekki með því að fresta vandanum endalaust. Við þurfum aðgerðir strax vegna þess að tíminn er dýrmætur um þessar mundir. Ef aðgerðirnar eru réttar og við gerum þetta sem ein heild mun bjartsýni ríkja á þessu landi og við munum vinna okkur upp úr þessari kreppu mun fyrr en margar aðrar þjóðir. Öll tækifæri eru til staðar en fyrst þarf að breyta starfsháttum hér í þinginu, sem eru undir forustu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, en því miður eru engin merki um að menn ætli að breyta um vinnuaðferðir hér á þingi. Menn munu halda áfram þeim vinnubrögðum sem við höfum þurft að horfa upp á undangengna mánuði, tæpt ár, með þeim aðgerðum eða réttara sagt aðgerðaleysi sem blasir við okkur öllum. Nú er mál að linni. Aðgerða er þörf. Við í Framsóknarflokknum erum tilbúin í slíkan leiðangur vegna þess að það þarf að fara að taka erfiðar ákvarðanir í þessu samfélagi til að snúa vörn í sókn.