138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Farið hefur verið yfir þau rök sem liggja til grundvallar þeirri tilhögun sem lögð er til í þessu þingmáli, þ.e. að það sé nauðsynlegt að búa til frestun, að fresta nauðungarsölum, þannig að ríkisstjórninni og Alþingi vinnist og ríkisstjórnin fái svigrúm til að koma fram með aðgerðir sem skila einhverjum árangri fyrir heimilin í landinu. Ég vil í upphafi máls míns benda á eitt atriði sem ég tel nauðsynlegt að við förum að fjalla um af nokkurri alvöru og það snýr að dráttarvöxtunum sem þeir sem geta ekki staðið í skilum eru rukkaðir um. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að við þær aðstæður sem uppi eru í íslenskum efnahagsmálum í dag, hljóti það að teljast mjög umdeilanlegt hvort rétt sé að beita dráttarvaxtaúrræðunum af jafnmikilli hörku og gert er. Það er nauðsynlegt að skilja hvað dráttarvextir eru nákvæmlega. Með leyfi, frú forseta, vil ég vitna í texta úr lögfræðiorðabókinni sem hljóðar svona:

„Dráttarvextir eru vextir sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga og fram að greiðsludegi. Dráttarvextir“ — og hér er það sem er mikilvægast — „eru einhvers konar lögákveðnar skaðabætur sem skuldara ber að greiða vegna greiðslufalls og þeir eru ákveðnir sem tiltekinn hundraðshluti af höfuðstól skuldarinnar miðað við tiltekið tímabil.“

Með öðrum orðum, þetta eru lögákveðnar skaðabætur. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt fyrirkomulag við eðlilegar aðstæður í hagkerfinu. Það er eðlilegt að til séu úrræði fyrir lánardrottna til þess að koma því fram að menn borgi skuldir sínar að hægt sé að beita dráttarvöxtum. En við þær aðstæður sem eru uppi í íslensku efnahagslífi núna, þegar orðið hefur efnahagshrun, hrun á fjármálamarkaði, þegar lán sem voru skráð í erlendri mynt hafa allt að því tvöfaldast, þegar verðbólgan hefur hækkað öll önnur lán, þegar dregið hefur mjög mikið úr atvinnu, atvinnuleysi fer vaxandi og það er minni vinnu að hafa, er kominn fram að mínu mati ákveðinn forsendubrestur. Það er ekki réttlátt að mínu mati að krefja fólk sem sannanlega getur ekki greitt skuldir sínar vegna þess að hér urðu atburðir sem þeir einstaklingar höfðu ekkert með að gera og báru enga ábyrgð á og gátu ekki komið í veg fyrir, sem gera það að verkum að allt í einu er skuldabyrðin orðin margföld á við það sem áður var.

Nú er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að fara að huga að því hvaða reglur við ætlum að hafa um beitingu dráttarvaxta og rétt er að hafa í huga að nú þegar eru mjög háir vextir í íslensku efnahagslífi, vextir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, þ.e. í hinum raunverulega efnahagslífi. Haldið er uppi háum vöxtum til að reyna að verja gengi krónunnar, hér eru ekki háir vextir vegna þenslu í hagkerfinu, þvert á móti, það er engin þensla, það er samdráttur og því ættu vextir að vera mjög, mjög lágir. Fyrir þá sem eiga útistandandi skuldir er þess vegna alveg nóg, frú forseti, að fá bara reiknaða venjulega vexti á skuldir sínar. Það dugar alveg við þessar aðstæður. Ég tel að það sé réttlætismál að ríkisstjórnin fari strax í að skoða það regluverk sem við höfum í kringum dráttarvextina og þær heimildir sem menn hafa til að beita dráttarvaxtaúrræðinu við þessar aðstæður. Það er líka rétt að nefna að í lögum um vexti og verðtryggingu er svo að orði komist í 7. gr., með leyfi forseta:

„Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum.“

Hvað er verið að segja hér? Það er verið að segja að ef einhverjir atburðir hafa átt sér stað þar sem skuldarinn hefur lent í þeirri stöðu, án þess að hafa neitt um það að segja, að geta ekki greitt af skuldum sínum, þar sem liggur samt sem áður fyrir greiðsluvilji, vilji til að standa í skilum en það er orðinn ómöguleiki einhverra hluta vegna, og við þær aðstæður verða menn auðvitað að horfa t.d. á þessa 7. gr.

Það er engin spurning, frú forseti, að þær aðstæður eru uppi á Íslandi að þúsundir einstaklinga, gríðarlegur fjöldi fjölskyldna í landinu, sem hefur verið með eðlilega stjórn á fjármálum sínum en hefur síðan lent í því vegna hruns efnahagskerfisins, vegna hruns íslensku krónunnar, vegna hruns bankanna, að það er allt í einu komin gjörsamlega ný staða sem einstaklingurinn getur ekki ráðið við. Og meðan við leysum ekki þetta vandamál, þ.e. Alþingi og ríkisstjórn, og komum með úrræði fyrir fjölskyldurnar í landinu er óskynsamlegt og óréttlátt að beita dráttarvöxtum. Það er alveg nóg fyrir eigendur þessara krafna að fá bara eðlilega vexti, af því að þeir eru svo háir þegar menn horfa til aðstæðna í hagkerfinu.

Síðan er hitt líka að þetta er ekki bara réttlætismál fyrir þá sem skulda heldur er þetta líka skynsemismál vegna hagstjórnarinnar. Stóra hættan sem er núna uppi í hagkerfinu er sú að það dragist svo saman kaupmáttur heimilanna vegna þess að lánin hafa hækkað jafnmikið og raun ber vitni, vegna þess að atvinnan hefur dregist saman og vegna þess að ríkisstjórnin hefur hækkað skatta þegar hún þurfti ekki að gera það, að eftirspurnin í hagkerfinu haldi áfram að dragast saman. Hvað þýðir það? Það þýðir að vinna dregst saman, það verður minni vinna í boði, og ef heimili geta ekki keypt vöru og þjónustu, minnka möguleikar manna til þess að framleiða, til þess að veita þjónustu, eðli málsins samkvæmt. Og það sem meira er og það sem gerist næst er að tekjur ríkisins dragast saman.

Ef við leysum ekki skuldavanda heimilanna verður þetta ekki bara skuldavandi heimilanna, þetta verður skuldavandi allrar þjóðarinnar, líka þeirra sem skulda ekki mikið. Það er þetta sem gerist, frú forseti. Það sem vofir okkur núna er þessi keðjuverkun, það verði vítahringur minnkandi kaupmáttar, minnkandi eftirspurnar, minnkandi atvinnu, minnkandi tekna ríkissjóðs sem verður alltaf erfiðara og erfiðara að grípa inn í.

Meðan við höfum það fyrirkomulag t.d. að rukka fólk sem sannanlega getur ekki greitt af skuldum sínum, að rukka það fólk um dráttarvexti, og á sama tíma að segja að við séum með úrræði til að lengja það eða fresta því að það fari fram nauðungarsölur, erum við að senda mjög misvísandi skilaboð. Við erum að segja að við ætlum að halda fólki lifandi en við ætlum að reikna á það dráttarvexti, og viðurkenna um leið, með því að leggja fram svona frumvarp um drátt á nauðungarsölu, að það sé eðlilegt að ríkið bregðist við, að það sé ekki eðlilegt ástand í samfélaginu, að það sé ekki hægt að standa í skilum. Og við eigum þá ekki, frú forseti, að hafa fyrirkomulagið þannig að verið sé að leggja á refsivexti, skaðabætur fyrir hönd fjármagnseiganda á þá sem skulda, við slíkar aðstæður. Það er óskynsamlegt fyrir efnahagslífið, það er óskynsamlegt fyrir efnahagsþróunina og það er óskynsamlegt og óréttlátt gagnvart þeim sem nú hafa lent í því að skulda það mikið að þeir geta ekki staðið undir því.

Ég vona, frú forseti, þó að ekki sé margt þingmanna í salnum, að þeir þingmenn sem styðja ríkisstjórnina hlýði á mál mitt og beiti þrýstingi innan sinna þingflokka á ráðherrana, á ríkisstjórnina, í þá veru að menn taki þetta mál upp hratt og vel og skoði nákvæmlega þennan hlut málsins, þ.e. dráttarvextina, og hvort ekki sé nauðsynlegt að grípa strax til einhverra lagabreytinga eða reglugerðabreytinga sem a.m.k. takmarki mjög beitingu slíkra refsivaxta við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi nú.