138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. allshn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það má vel taka undir það með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það er ekki eðlilegt ástand í þjóðfélaginu. Það er því ánægjulegt að allir flokkar taki þátt í því og séu sammála um að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir þar sem sannarlega er verið að reyna að bregðast við þessu óeðlilega ástandi. Eins og ég sagði áðan erum við stjórnarþingmenn alveg meðvitaðir um að það mál sem snertir skuldavanda heimilanna hefur ekki verið leyst svo að öllum líki. Eins og ég sagði áðan þá tel ég raunar að það verði aldrei gert svo að öllum líki, en vonandi einhvern veginn þannig að við sjáum fram úr þessu mikla vandamáli sem við áttum okkur vonandi öll á hvernig til er komið. Það er komið til út af því að efnahagskerfið hér í landinu fór á hliðina, það var ekki þessari ríkisstjórn að kenna.

Mig langar aðeins að nefna, út af þeim málum sem hv. þm. Eygló Harðardóttir fór hér í gegnum, að það kom skýrt fram í ræðu hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra að í dómsmálaráðuneytinu er unnið að ýmsum málefnum sem varða nauðungarsölu, innheimtukostnað o.fl. Ég held að við getum öll verið hjartanlega sammála um að það er ekki af því að við viljum það endilega sem við erum að samþykkja frumvarp af þessu tagi. Við vildum auðvitað vera laus við að þurfa að bera fram svona frumvarp. Auðvitað vill ekkert okkar vera í því efnahagsástandi sem við erum í. Ég held að við getum að minnsta kosti verið sammála um það þó að við séum ekki sammála um annað hér í þessum þingsal.