138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú búinn að koma svo oft hingað upp að mér finnst ég þurfa að taka það fram að bindisleysi mitt er ófærðinni hér úti í bæ að kenna, ég ætlaði að vera farinn heim. Ég er ekki vanur því að brjóta gamlar hefðir hér í þinginu og vonandi endurtekur þessi atburður sig ekki.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Ég held við séum einfaldlega öll sammála því að úrræði ríkisstjórnarinnar eða aðgerðir hafa ekki verið nægjanlegar og við þurfum að spýta í lófana. Þar hef ég kallað eftir samstöðu allra flokka. Ég spyr hv. þingmann, sem er reynslumikil kona, hvort henni finnist starfsaðferðirnar hér í þinginu vera til fyrirmyndar, hvort við mundum ekki ná meiri árangri ef við værum að vinna meira saman að málum áður en þau koma inn í þingið, þannig að orðræðan verði ekki með þeim hætti að stjórnarandstaðan komi að orðnum hlut af stefnu ríkisstjórnarinnar, frekar en að reyna að ná einhverri málamiðlun áður. Það er kannski þess vegna sem Alþingi birtist eins og það gerir, samráðið er svo lítið að við þurfum að eiga í mjög djörfum skoðanaskiptum hér í þessum ræðustól vegna þess að aðkoma okkar að málum hefur verið allsendis ófullnægjandi.

Ég vil síðan minna hv. þingmann á að regluverk fjármálalífsins hér var tekið upp á grundvelli EES-samningsins, ég held við séum sammála um það. Með gjörðum sínum síðustu daga og áætlunum hefur Evrópusambandið í raun viðurkennt að það regluverk var laskað og gallað, með því t.d. að ætla að hafa einn innstæðutryggingarsjóð, þannig að það sé ekki hjá hverju og einu landi. Ég held að við megum ekki lúta í gras og segja að allt hafi verið okkur að kenna. Icesave-málið er m.a. sprottið upp úr gölluðu regluverki Evrópusambandsins sem við innleiddum á 10. áratugnum. Við verðum náttúrlega að gæta hagsmuna (Forseti hringir.) okkar sem þjóðar og tala fyrir því að það (Forseti hringir.) regluverk hafi verið gallað.