138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu og koma um leið þeim skilaboðum til ríkisstjórnarinnar að þegar kemur að dráttarvöxtum á fólk sem er skuldugt langt umfram greiðslugetu vegna atburða sem það sjálft hafði enga stjórn á er eðlilegt að við endurskoðum heimildir sem eru til þannig að menn geti beitt slíkum dráttarvöxtum. Dráttarvextir eru í eðli sínu refsivextir, refsing og úrræði sem lánardrottinn hefur til að beita ef er ekki greiðsluvilji. Það er greiðsluvilji hjá íslenskum heimilum en það er ómöguleiki. Það frumvarp sem við ræðum hér er einmitt merki um að Alþingi Íslendinga samþykkir að það er ómöguleiki, þess vegna þarf að fresta nauðungarsölu. Þess vegna ríður svo mjög á að ríkisstjórnin komi með úrræði áður en það verður of seint, áður en heimilin (Forseti hringir.) fara niður og um leið fer allt hagkerfið niður. (Forseti hringir.) Menn verða að skilja það samhengi. Þetta er ekki bara vandi skuldugra heimila, þetta er vandi (Forseti hringir.) þjóðarinnar allrar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)