138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þingmenn stjórnarinnar virðast helst vilja forðast að tala um sitt eigið aðgerðaleysi. Þeir vísa til sögunnar og minni þeirra vill stundum verða miklu lengra en okkar hinna sem erum búin að vera hér töluvert styttra. Hins vegar vil ég vísa til þess sem ASÍ hefur talað um. Hér eru tillögur frá ASÍ, nákvæmar tillögur, leiðbeiningar til okkar þingmanna um hvernig við getum tekið á skuldavanda heimilanna. Til að nefna nokkur atriði er talað um bann við fjárnámum, nauðungaruppboðum og gjaldþrotum vegna innheimtukostnaðar sem er reiknaður út frá heildarupphæð láns í stað hluta lánsins sem er í vanskilum, að fólk sem er búið að missa húsnæði sitt geti búið þar í 12 mánuði með því að greiða leigu, að greiðsluaðlögun sem nær til almennra skulda og veðskulda, þar á meðal íbúðalána og bílalána — að lög sem voru samþykkt af þessari ríkisstjórn um greiðsluaðlögun verði betrumbætt, og margt fleira. Þetta er eitthvað sem ég held að við þingmenn (Forseti hringir.) ættum að geta sameinast um. Ég vonast til að sjá mál þess eðlis mjög fljótt hérna í þinginu.