138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:42]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður á þessum vettvangi rætt nokkuð um orðsporsáhættu sem taka verður tillit til þegar fyrirtæki fara í gegnum skuldameðferð, þ.e. bankinn á að taka tillit til orðspors þeirra sem taka við fyrirtækinu þegar bankinn metur fjárhagslegan ávinning af því að viðkomandi einstaklingur taki við fyrirtækinu eða verði í lykilstöðu. Mikil umræða á sér stað á vettvangi lífeyrissjóðanna um þessi álitamál. Stjórn Kennarasambandsins hvetur stjórnir lífeyrissjóða til að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir stjórn aðila sem áður hafa valdið sjóðunum alvarlegu fjárhagstjóni. Kennarar eru aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en hann er ásamt Gildi einn þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins. Þeir eiga verðmæt skuldabréf sem hafa verið gefin út af stórum fyrirtækjum á undanförnum árum.

Hvernig hyggst Gildi – lífeyrissjóður taka á málum? Skoðum samþykktar siðareglur Gildis frá október 2009, en þar segir, með leyfi forseta:

„Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðunum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör eða stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum.“

Nú vaknar spurningin: Munu þessi viðmið endurspeglast í fjárfestingarstarfsemi sjóðsins eða hvernig hann tekur á málum skuldsettra fyrirtækja? Mun Gildi nota þessi viðmið þegar sjóðurinn metur hvort hann tekur þátt í opnu hlutafjárútboði? Hvar stendur útboðið ef flótti er brostinn í stofnanafjárfesta? Ef svo er erum við komin með mælanlega stöðu á því tjóni sem hlýst af því að umdeildur einstaklingur fái aðkomu að lykilfyrirtæki á nýjan leik. Þá er brostinn grundvöllur fyrir þeirri skoðun bankakerfisins að endurheimtur verði betri ef viðkomandi einstaklingur fær að vera áfram í eigendahópi.

Ég er fylgjandi opnu útboði en það er spurning hvernig staðið er að því. Það sjónarmið bankanna að fjárhagslegar endurheimtur verði betri halda því ekki vatni því að umdeilt hlutafjárútboð er að öllum líkindum andvana fætt með tilheyrandi tjóni fyrir viðkomandi banka. Ef enginn vill taka þátt í útboðinu vegna forgangs ákveðinna aðila tapast umtalsverðir fjármunir. Því má segja (Forseti hringir.) að endurheimtur bankanna verði mun betri ef viðkomandi fær ekki forgang. Við erum þannig komin með fjárhagslegan (Forseti hringir.) mælikvarða á ávinning bankans af því að starfa ekki með viðkomandi einstaklingi.