138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að það sé mikilvægt að fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja fari vel fram, en það er ekki nóg að hún fari vel fram heldur þarf hún jafnframt að ganga mjög hratt fyrir sig ef við eigum að koma í veg fyrir stöðnun atvinnulífsins.

Því miður hefur gríðarlegt umfang bankahrunsins tafið endurreisn raunhagkerfisins, þ.e. um 70% fyrirtækja landsins. Samkvæmt lögum frá október 2009 eiga fjármálafyrirtæki að setja sér verklagsreglur um skuldaaðlögun fyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið staðfestir síðan. Samtök fjármálafyrirtækja hafa unnið þessar verklagsreglur í góðu samstarfi við viðskiptanefnd. Reglurnar munu þó ekki koma í veg fyrir matskenndar ákvarðanir um hvaða fyrirtæki fá afskrifaðar skuldir og hvaða eigendur fá að halda fyrirtækjum sínum. Verklagsreglurnar eru nú í annað sinn á leið til Fjármálaeftirlitsins og það er von mín að fjármálafyrirtækin setji inn ákvæði um að stofnandi fyrirtækis megi hvorki hafa farið fram á né vera í greiðslustöðvun né bú hans vera undir gjaldþrotaskiptum. Viðskiptanefnd hefur ekki lagalega heimild til að krefjast breytinga á verklagsreglum. Næsta verkefni nefndarinnar er því að kanna hvort ástæða sé til að breyta lögum.

Frú forseti. Pólitískt markmið lagabreytinga ætti að mínu mati að vera að tryggja langtímahagsmuni, ekki aðeins samtímahagsmuni eins og hámarksendurheimtur. Þessi markmið ættu að koma í veg fyrir að áhættusæknir einstaklingar sem keyrt hafa fyrirtæki í þrot með hegðun sinni fái þau afhent aftur, tryggja dreift eignarhald fákeppnisfyrirtækja með því að leyfa aðkomu starfsfólks og að lokum skipta upp fyrirtækjum sem hafa ráðandi markaðsstöðu vegna stærðar sinnar.