138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Fyrir um ári var boðað til þingkosninga og kosningabaráttan hófst. Hún snerist að miklu leyti um það í hvernig þjóðfélagi við vildum búa. Eins og við var að búast voru skoðanir skiptar eftir fólki og flokkum, en flestir virtust sammála um hvernig þjóðfélag við ætluðum ekki að byggja upp. Krafan var og á að vera réttlæti. Það er skammarlegt hver þróunin hefur orðið. Svo virðist sem þeir sem komu okkur á kaldan klakann, þeir sem fóru of geyst, þeir sem skuldsettu sig og ótal kennitölur á sínum vegum upp í rjáfur, þeir sem flæktu sig í svo flóknum vefjum krosseignatengsla að nær ógerningur var að rekja spor þeirra, þeir og einmitt þeir fá skuldir sínar afskrifaðar og fyrirtæki sín aftur á silfurfati með hóflegri skuldabyrði. Á meðan fresta stjórnvöld nauðungarsölum á heimilum landsmanna og hreykja sér af vitagagnslausum úrræðum með hámarksflækjustigi þótt það hafi sýnt sig að við þurfum róttækari og almennari aðgerðir til að leiðrétta þann algjöra forsendubrest sem hér varð.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki réttlæti. Svona Ísland viljum við ekki. Við hljótum að geta verið sammála um það.

Það hefur sýnt sig að fjármálastofnanir eru ófærar um að setja sjálfum sér siðareglur. Svo mikið ættum við að hafa lært af hruninu. Alþingi þarf að sammælast um lagasetningu sem leiðréttir stökkbreytt lán heimilanna og knýr þá sem komu okkur á kné til ábyrgðar og hindrar að þeir nái aftur völdum á viðskiptalífinu.

Það gengur ekki heldur að hæstv. ríkisstjórn standi aðgerðalaus hjá, hreyfi hvorki legg né lið og lýsi svo hneykslan sinni í fjölmiðlum.

Frú forseti. Aðgerða er þörf.