138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[14:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við höfum falið íslenskum bönkum og reyndar fleiri fjármálafyrirtækjum mjög erfitt verkefni. Þegar einhverjum er falið mikilvægt verkefni verður að treysta honum þannig að við verðum að einhverju marki að treysta bönkunum í þeirri vinnu sem fram undan er, en það traust má aldrei verða blint. Við verðum að fylgjast með þeim og ekki bara úr fjarska, við verðum að fylgjast mjög náið með þeim. Til þess hefur hið opinbera margvísleg tæki og þeim verður öllum beitt. Sum þessara tækja heyra undir mitt ráðuneyti, svo sem Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið og reyndar einnig eftirlitsnefnd samkvæmt lögum nr. 107/2009. Önnur heyra undir aðra, eins og Bankasýslan, og svo er það vitaskuld hlutverk löggjafans að setja löggjöf sem rammar þetta allt saman inn. Á vettvangi allra þessara stofnana hefur verið unnið mikið starf og sumt er reyndar enn þá fram undan, eins og t.d. að breyta lögum um fjármálafyrirtæki og að breyta hlutafélaga- og einkahlutafélagalögum til að auka minnihlutavernd. Það kemur vel til greina að gera það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerði að umtalsefni, að beita samkeppnislögunum til að veita þeirri stofnun heimildir til að breyta skipulagi fyrirtækja, eins og það er almennt orðað, en með því er m.a. átt við að fyrirtækjum verði skipt upp ef þau hafa markaðsráðandi stöðu sem veldur verulegum vandræðum sem ekki er hægt að vinna bug á öðruvísi.

Ég tel jafnframt mjög gott að þessi umræða um siðferðisleg viðmið hafi náð því flugi sem hún hefur náð en við verðum að hafa í huga, og kannski var það það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vakti athygli okkar á, að þessi umræða getur verið mjög hættuleg. Það er hægt að ganga of langt. Það er hægt að svipta menn eignum án dóms og laga á grundvelli þess sem stundum er kallað orðspor og það viljum við ekki gera. Við þurfum að standa vörð um réttarríkið þótt við jafnframt gerum ríkari siðferðiskröfur (Forseti hringir.) en gert var í hinu fallna bankakerfi.