138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2008 sem er 391. mál þessa þings og hefur verið dreift á þingskjali 699.

Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á fjárheimildum sem verða vegna frávika í mörkuðum skatttekjum og öðrum ríkistekjum stofnana frá áætlunum fjárlaga og fjáraukalaga og gerðar tillögur um ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok, annaðhvort með niðurfellingu þeirra eða flutningi til næsta árs. Þá er frumvarpið og til staðfestingar á niðurstöðum í ríkisreikningi ársins 2008.

Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og undanfarin ár og tillögur um breytingar á fjárheimildum vegna frávika í ríkistekjum stofnana og ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok byggja á svipuðum viðmiðunarreglum og áður.

Tillögur frumvarpsins, um ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok, mótast þó einnig af nýjum viðmiðum sem lúta að því að felldar hafa verið niður mjög umtalsverðar afgangsheimildir sem safnast hafa upp á ýmsum liðum, m.a. vegna framkvæmda sem ekki hefur orðið af, ásamt því að fella niður rekstrarfjárheimildir sem ekki hafa verið nýttar og eru umfram tiltekið hlutfall af veltu. Í því sambandi hefur verið miðað við að árlegur flutningur á afgangsheimildum í almennum stofnanarekstri og reglubundnum rekstrarverkefnum fari almennt ekki umfram 4% af fjárlagaveltu viðkomandi stofnana og verkefna nema sérstakar ástæður hafi verið taldar til annars. Dæmi um slík frávik geta verið ef framkvæmd verkefnis hefur frestast yfir áramót eða stofnað hefur verið til skuldbindingar á árinu 2009 á grundvelli fjárveitingar sem veitt var í fjáraukalögum 2008. Til lengri tíma litið er þó miðað við að heimilt verði að safna upp ónýttum fjárheimildum og yfirfæra allt að 10% af rekstrarveltu milli ára en aldrei meira. Hér er um að ræða hluta af aðgerðum, aðhaldssömum aðgerðum má segja, sem gripið hefur verið til í því skyni að styrkja umgjörð ríkisfjármálanna.

Eitt af því sem vekur athygli hjá utanaðkomandi aðilum, sem hafa skoðað framkvæmd þessara mála hjá okkur að undanförnu, svo sem eins og sérfræðingahópur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gerði, er það frjálslyndi eða frjálsræði, svo ekki sé sagt lausung, sem viðgengist hefur á undanförnum árum í þessum efnum. Nú er meiningin að taka á því enda mikilvægt til að hægt sé að festa betur í sessi þann ramma sem ríkisfjármálin byggja á á hverjum tíma og ná fram settum markmiðum í þeim efnum.

Tilgangurinn er sem sagt sá að takmarka verulega flutning afgangsheimilda milli ára, að koma í veg fyrir að efna megi til umtalsverðra útgjalda umfram fjárlög, enda auka útgjöld, sem efnt er til á grundvelli geymdra fjárheimilda, að sjálfsögðu halla ríkissjóðs og skuldasöfnun á nákvæmlega sama hátt og önnur útgjöld. Við undirbúning frumvarpsins var farið yfir allar slíkar afgangsstöður með fagráðuneytunum og miðað við að flutningur afgangsheimilda í rekstri takmarkist almennt við þessi viðmið nema samþykkt hafi verið að sérstakar ástæður standi til annars. Að öðru leyti hefur, eins og jafnan áður við undirbúning lokafjárlaga, verið farið yfir alla fjárlagaliði og tillögur um niðurfellingar og yfirfærslur ákveðnar með hliðsjón af málsatvikum samkvæmt sömu viðmiðunarreglum og áður.

Vík ég þá nánar að einstökum lagagreinum frumvarpsins:

Í 1. gr. frumvarpsins, samanber yfirlit í sundurliðun 1, eru lagðar til breytingar á fjárheimildum einstakra verkefna og stofnana vegna frávika markaðra ríkistekna frá áætlun fjár- og fjáraukalaga. Lagt er til að fjárheimildir hækki um 2.546,2 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með mörkuðum ríkistekjum. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir því að mega ráðstafa þessum tekjum, ýmist í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings eða hver metin fjárþörf reyndist vera við skil ríkissjóðs á mörkuðum tekjum til viðkomandi verkefna og stofnana.

Í mörgum tilvikum gildir að útgjaldaheimildir hækka ef lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum hafa verið umfram fjárlög, en lækka hafi tekjurnar verið minni. Þetta viðmið er þó ekki algilt því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana þar sem ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar á þann hátt að breytingar í tekjum hafi bein áhrif á kostnað.

Í 2. gr. frumvarpsins, samanber yfirlit í sundurliðun 2, eru tillögur um niðurfellingar á fjárheimildastöðum í árslok 2008. Lagt er til að niður falli 219.253,4 millj. kr. umfram gjöld á rekstrargrunni en á greiðslugrunni falla niður 12.734,1 millj. kr. af afgangsheimildum. Þessi mikli munur sem er á milli rekstrargrunns og greiðslugrunns í niðurfelldum fjárheimildastöðum stafar af því að niður falla há umframgjöld vegna gjaldfærslna sem ekki hafa fylgt samsvarandi greiðslur úr ríkissjóði, svo sem eins og á liðunum Tapaðar kröfur, Lífeyrisskuldbindingar, Vaxtagjöld og Afskriftir skattkrafna.

Auk hinna nýju viðmiða, um niðurfellingar á afgangsheimildum, sem ég vék að áðan, þá er í tillögugerðinni um ráðstafanir á fjárheimildastöðum í árslok einkum litið til þess hvort útgjöld séu bundin, t.d. af lögum, eða lúti frekar fjármálastjórn tiltekins stjórnsýsluaðila. Í sumum tilvikum kann að vera álitamál hvort fella eigi niður stöður eða flytja til næsta árs og við gerð sérhvers lokafjárlagafrumvarps er lagt mat á þessi tilvik.

Í fylgiskjali 1 með frumvarpinu eru sýndar fyrirhugaðar breytingar á fjárheimildum ársins 2009 vegna stöðu fjárheimilda í árslok 2008 sem yfirfærast til næsta árs. Gert er ráð fyrir að heimildir til rekstrar verði auknar um 7.352,5 millj. kr., tilfærsluheimildir auknar um 3.519 millj. kr. og heimildir til viðhalds- og stofnkostnaðarframkvæmda auknar um 9.882,5 millj. kr. Er þannig fyrirhugað að hrein aukning heimilda á árinu 2009, vegna þessara ráðstafana, verði 20.754 millj. kr. en það samsvarar 3,7% af fjárlögum 2009. Í fylgiskjali 2, yfirliti yfir talnagrundvöll frumvarpsins, má sjá nánar fjallað um þessi atriði.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Með því eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2008 og vísast í því sambandi til greinargerða í fjáraukalögum og ríkisreikningi um meginatriði í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Ég tel því ekki ástæðu til að fara nánar yfir einstök atriði í frumvarpinu og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar sem að sjálfsögðu mun fara samviskusamlega yfir það samkvæmt venju. Við kveðjum fjárlagaárið 2008 með litlum söknuði. Það var og verður vonandi lengi dekksta ár í ríkisbókhaldi okkar með þeim gríðarlega hallarekstri sem horfast verður í augu við þegar ríkissjóður er gerður upp með öllu því tjóni sem bankahrun haustsins 2008 hafði í för með sér og skýrt kemur fram í þessu frumvarpi til lokafjárlaga.