138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[14:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framlag hans til þessarar umræðu og þær fyrirspurnir sem hann leggur fram. Mér finnst full ástæða til að öll þau þrjú atriði sem hér eru nefnd verði skoðuð og það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er ekki nýtt í umræðunni, m.a. hefur hv. þingmaður áður komið með þetta inn í umræðuna.

Varðandi vildarpunktana þá man ég ekki betur en að skoðað hafi verið af fjármálaráðuneytinu hvort hægt væri að taka á þessu þannig að vildarpunktarnir rynnu þá í ríkissjóð en ekki til viðkomandi starfsmanna og ég man satt að segja ekki hver var fyrirstaðan fyrir því. Það var eitthvað sem flugfélögin settu fram sjálf um að þá mundu þau bara fella niður þessa vildarpunkta eða eitthvað í þá veru en það er sjálfsagt að kynna sér það sérstaklega og spurning hvort þetta eigi heima í siðareglum. Ég skal ekki segja. Mér finnst sjálfsagt að nefndin sem fær þetta til umsagnar, allsherjarnefnd, skoði þennan þátt en að því er varðar dagpeningana sem hv. þingmaður nefndi, að bæði séu dagpeningar og síðan hótel greitt sérstaklega, þá hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar verulega verið hreyft við dagpeningum, t.d. dagpeningum maka sem var náttúrlega alveg fáránlegt að væru greiddir. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það frekar í þeim þrengingum sem við erum í hvort eigi að þrengja enn frekar að, m.a. það sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega varðandi greiðslu á hóteli fyrir utan dagpeninga. Ég er ekki viss um að það passi inn í þessar almennu siðareglur en það er alveg sjálfsagt að skoða þetta sérstaklega.

Varðandi skattfrelsi utanríkisþjónustunnar hefur hv. þingmaður nefnt þetta áður. Eins og hv. þingmaður nefnir hefur Vínarsamkomulagið verið talið vera fyrirstaða þarna. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ég hef stundum einmitt velt þessu (Forseti hringir.) fyrir mér, hvort það eigi virkilega rétt á sér að ákveðið skattfrelsi sé í utanríkisþjónustunni sem er þá hluti af kjörum viðkomandi og það yrði þá að skoða (Forseti hringir.) í samræmi við heildarkjörin í utanríkisþjónustunni.