138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa lagt fram þetta frumvarp sem felur í sér siðareglur fyrir Stjórnarráð Íslands og er vissulega í takti við þá umræðu sem nú fer fram í samfélagi okkar um það hvernig við ætlum að laga nýtt Ísland og koma kannski á fót nýjum vinnubrögðum sem ekki þekktust fyrir hrun. Þetta er einn hluti af því. Mig langar að fara yfir þessa áætlun í nokkrum orðum og spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur efnisatriði.

Áður en ég kem að frumvarpinu sjálfu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna þess að hér er verið að innleiða helming setningar í henni. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Verkaskipting ráðuneyta verði endurskipulögð og ráðherrum, alþingismönnum og stjórnsýslu ríkisins settar siðareglur.“

Nú er sem sagt verið að vinna í seinni hluta þessarar setningar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, núna þegar við erum að tala um að draga saman útgjöld hins opinbera, og þá kannski ekki hvað síst á hinum æðstu stöðum, því að það er verið að taka til á heilbrigðisstofnunum í landinu og víðar: Hvar stendur vinnan við að endurskipuleggja verkaskiptingu ráðuneytanna? Hvenær á að hrinda þeim mikilvægu áformum af stað? Er pólitískt svo erfitt fyrir þessa tvo flokka að fækka ráðherrum úr tólf í níu eða tíu, eða hvað veldur? Hvenær má vænta þess að verkstjórinn sjálfur, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, muni beita sér fyrir því að menn endurskipuleggi Stjórnarráðið núna þegar gríðarleg pressa er á ríkisstjórnina og Alþingi að draga saman og við höfum aldeilis dregið saman á vettvangi þingsins? Þetta er fyrsta spurningin vegna þess að það er sérstaklega kveðið á um þetta í stjórnarsáttmálanum um leið og siðareglurnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í öðru lagi áður en ég fer út í siðareglurnar sem slíkar hvort það hefði staðist þær siðareglur sem hæstv. ráðherra ætlar að setja ráðherrum sínum í ríkisstjórn sinni að hafa ráðið á síðasta ári yfir 40 manns án auglýsingar. Stóðst það þær siðareglur sem hæstv. ráðherra ætlar að tala hér fyrir að hæstv. ráðherrar hafi beitt sér fyrir því að ráða einstaklinga í ráðuneyti sín án þess að störfin yrðu auglýst á meðan 16.000 Íslendingar ganga um án atvinnu, örugglega margt fólk sem hefði gjarnan viljað sækja um þau störf sem ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákváðu að auglýsa ekki?

Þá aðeins að reglunum sem eru dálítið undir hæstv. ráðherra komið. Ég endurtek að ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í því að innleiða þessar reglur. Ég velti fyrir mér umfjöllun um vinnubrögð í til að mynda 4. kafla skýrslu siðareglnanna af því að mér finnst dálítið huglægt hvernig menn meta þetta. Í 3. lið segir, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra gerir skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi, svo sem í tengslum við kosningar, og verkefnum ráðuneytis síns hverju sinni. Hann felur starfsmönnum ráðuneyta, öðrum en aðstoðarmanni, ekki verkefni sem tengjast stjórnmálastarfi hans.“

Hæstv. ráðherrar hafa ýmiss konar fríðindi eins og við þekkjum. Tökum sem dæmi bílstjóra, ef það væri flokksstjórnarfundur hjá Samfylkingunni sem er vissulega á hinum pólitíska vettvangi, mætti þá ráðherrabílstjórinn ekki aka hæstv. forsætisráðherra úr forsætisráðuneytinu á þann fund? Þetta er spurning sem menn verða að svara og við hljótum að velta fyrir okkur hvað á að gera ef menn gerast mjög brotlegir við þessar reglur. Hver verða viðurlögin? Þurfa hæstv. ráðherrar að segja af sér? Hversu langt á að ganga? Hversu hörð ætlar hæstv. forsætisráðherra sér að vera við innleiðingu þessara reglna?

Ég velti fyrir mér í 2. lið hvort hæstv. ráðherra ætli að innleiða það sem segir í einum punktinum:

„Útgjöld vegna ferðalaga, veisluhalda, gestamóttöku o.þ.h. ber að takmarka við það sem nauðsynlegt er vegna skyldna embættisins.“

Hver á að meta þetta? Er það hæstv. forsætisráðherra eða eigum við að fá Ríkisendurskoðun til að meta þetta? Þetta er nokkuð sem við þurfum að fá útskýringar á eins og með allt eftirlit með þessari almennu stjórnsýslu.

Ég velti öðru fyrir mér sem auðvitað er álitamál. Í öðrum kafla þessarar skýrslu starfshópsins segir, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra gerist ekki sérstakur fulltrúi eða talsmaður einstakra fyrirtækja innan lands eða á erlendum vettvangi.“

Er þetta þá skýlaust bann við því að ráðherrar fari út og tali jafnvel við þjóðhöfðingja annarra landa um einhver verkefni íslenskra fyrirtækja, jafnvel sem eru ekki í neinni samkeppni innan lands? Bannar hæstv. forsætisráðherra ráðherrum að fara með viðkomandi fyrirtækjum út? Ég veit að reynslan hefur verið misjöfn en menn mega ekki vera fullkaþólskir þegar kemur að þessum málum. Það geta komið upp einstök atriði þar sem viðkomandi erindrekstur ráðherra ætti fullan rétt á sér.

Eins velti ég fyrir mér upplýsingagjöf. Við þekkjum það í þinginu að oft svara hæstv. ráðherrar fyrirspurnum sem við þingmenn beinum til þeirra á vettvangi þingsins of seint, jafnvel allt of seint. Hér stendur í reglunum, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra veitir þær upplýsingar sem lög kveða á um“ — væntanlega þingskapalög — „að veita skuli fljótt og vel og sér til þess að starfsmenn ráðuneytis hans vinni í sama anda.“

Hvað mun gerast gagnvart siðareglum ef ráðherrar í ríkisstjórn verða brotlegir við þetta ákvæði siðareglnanna? Það sem ég er í raun og veru að hugsa um, um leið og ég fagna góðum anda í þessu, er að mönnum sé alvara með það sem sett er á blað, að því verði fylgt eftir. Af hverju segi ég þetta? Ég segi það ekki að ástæðulausu. Um leið og ég lýsi mig fylgjandi meginanda þessa frumvarps er ég bara ekki viss um að ríkisstjórnin (Gripið fram í: Góður.) ætli sér að framfylgja þessu með þeim hætti, og ég er búinn að spyrja nokkurra spurninga um þessar siðareglur, að taka hart á því ef viðkomandi ráðherra brýtur reglurnar. Af hverju segi ég þetta? Það er búið að setja margar mjög flottar áætlanir af stað. Samfylkingin barðist fyrir því á sínum tíma að vítt og breitt um landið yrðu til störf án staðsetningar. Hver er sú áætlun Samfylkingarinnar í dag? Ég spurði að því á vettvangi þingsins eftir að Samfylkingin hafði verið í ríkisstjórn í rúm tvö ár og þá kom í ljós að eitt starf hafði verið auglýst án staðsetningar. Er verið að gera grín að kjósendum með slíkum yfirlýsingum?

Menn tala um sóknaráætlun í dag. Þetta eru voðalega flott orð og maður getur verið sammála svo mörgu sem í þessu stendur, en eigum við ekki aðeins að horfa til þess hvað þessi sama ríkisstjórn hefur lagt á borð fyrir okkur þingmenn, og ekki síst almenning í landinu, og vakið gríðarlegar væntingar? Þess vegna er mikilvægt að fá það bara skýrt frá hæstv. forsætisráðherra hvort menn meini í raun og veru eitthvað með þessu. Ég ætla að vitna til reynslunnar, ég ætla að fara eitt ár aftur í tímann þegar hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra kynntu stórkostlegar tillögur, með leyfi frú forseta:

„Ríkisstjórnin hyggst skapa 4.000 ný ársverk.“

Gríðarlegar væntingar urðu þessu samfara í samfélaginu. Ríkisstjórnin sagði okkur í stjórnarandstöðunni: Hættið þessari svartsýni, hér er allt á fleygiferð. Það er ár síðan. Er ekki ágætt að við gerum þessa áætlun upp áður en við klárum umfjöllun um það mál sem hér liggur fyrir?

Það var gert ráð fyrir að virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður mundu skapa 2.000 ný störf. Hvar eru þessi 2.000 störf sem ríkisstjórnin lofaði? Jú, það er búið að endurnýja áætlunina með fréttatilkynningu frá iðnaðarráðherra ári síðar þar sem segir að gert sé ráð fyrir undirbúningsframkvæmdum við Búðarhálsvirkjun sem munu skapa 30–40 störf. Það voru 2.000 fyrir einu ári. Það er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra hlæi að þessu vegna þess að þetta er hlægilegt. Það er ekki mikið að marka slíka áætlanagerð ef við horfum á efndirnar.

Það átti að skapa 110 störf vegna ofanflóða- og snjóflóðavarna. Það átti að verja til þess 1 milljarði kr., þar af 500 millj. kr. til Neskaupstaðar. Hver var svo ákvörðun ríkisstjórnarinnar um snjóflóðavarnir í Neskaupstað sem var helmingurinn af þessum áætlunum? Slegnar af eftir einungis nokkra mánuði frá þessari sóknaráætlun sem ríkisstjórnin kynnti fyrir ári. (Gripið fram í: Var ég með áætlanir …?)

Í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar var líka fjölgun starfa í sjávarútvegi vegna minni útflutnings óunnins fisks. 300 störf, takk fyrir. Hvað hefur orðið um efndir þeirra loforða ríkisstjórnarinnar sem eru rétt eins árs gömul í dag? Mér finnst mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um það í ljósi þess hversu glæsilegur blaðamannafundurinn var sem hæstv. forsætisráðherra boðaði til. Hvar eru efndirnar eftir áætlanagerð sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir?

Svo kemur það fyndnasta, það átti að efla íslenska kvikmyndagerð. Það átti að skapa 120 ársverk í íslenskri kvikmyndagerð. Hverjar eru efndir þess? Efndirnar eru þær að íslenskir leikarar mótmæla nú í stríðum straumum opinberlega niðurskurði til íslenskrar kvikmyndagerðar ári eftir að ríkisstjórnin boðaði til fjölmiðlaveislu og tilkynnti um 4.000 ný ársverk og sagði okkur í stjórnarandstöðunni í hinu orðinu: Verið ekki svona svartsýn.

Það er eðlilegt að við spyrjum þegar við sjáum metnaðarfullt plagg um siðareglur innan Stjórnarráðsins, í ljósi starfa án staðsetningar, sóknaráætlunar og 4.000 nýrra starfa, hvort hér fylgi raunverulegur hugur máli. Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál en við í stjórnarandstöðunni ráðum náttúrlega ekki för í landinu, það er sjálft framkvæmdarvaldið sem ætlar að setja sjálfu sér siðareglurnar og hafa eftirfylgd með því. Ég spurði nokkurra spurninga um hvað mundi gerast og hvernig hæstv. forsætisráðherra mundi bregðast við ef ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn mundu ekki virða viðkomandi siðareglur. Væri það hreinlega brottrekstrarsök, eða hvað? Ég á von á því að hæstv. forsætisráðherra svari þeirri fyrirspurn minni hvort 42 ráðningar inn í ráðuneytin án þess að hafa auglýst viðkomandi störf mundu standast þessar siðareglur. Það er mikilvægt að vita hvert ríkisstjórnin stefnir og hversu hörð þessi viðurlög eiga að vera eða öllu heldur hversu fast ríkisstjórnin ætlar að fylgja þessari áætlun eftir eins og öllum hinum sem ég hef nefnt hérna. Það stendur ekki steinn yfir steini. Hlutverk þingsins er fyrst og fremst að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald og þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra geri í þessari umræðu hreint fyrir sínum dyrum þegar kemur að því að ræða ýmiss konar sóknaráætlanir ríkisstjórnarinnar. Það verður að vera eitthvað að marka það sem menn boða. Það er ekki nóg að viðhafa falleg orð, halda glæsilega blaðamannafundi, tilkynna frumvarp til laga um siðareglur á Stjórnarráði Íslands, sem ég styð, ef efndirnar eru ekki meiri en raun ber vitni. Þess vegna er mikilvægt áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. forsætisráðherra geri grein fyrir því hvernig hún ætli sér að standa að því að koma þessum siðareglum á fót. Ég endurtek enn og aftur að við framsóknarmenn erum hlynntir því að slíkar reglur verði settar á jafnt í þinginu og í Stjórnarráðinu, það er nauðsynlegt. Því miður eru efndir ríkisstjórnarinnar ansi litlar þegar kemur að framkvæmd þessara áætlana.

Ég vonast svo til þess að sú nefnd sem mun fara yfir þetta mál, allsherjarnefnd mundi ég halda, fari mjög vandlega yfir málið. Vonandi hefur einhver nefndarmannanna hlustað á það sem ég hef haft fram að færa í þessari umræðu vegna þess að fjölmörg álitamál koma upp við að lesa þetta ágæta plagg. Ég endurtek enn og aftur að þetta mega ekki verða orðin tóm, eitthvað á blaði án þess að raunverulegar aðgerðir fylgi. Við þurfum aðgerðir á Íslandi í dag en ekki einhvern fagurgala.