138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[16:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt farið inn á það í frumvarpinu, að líka á að skoða að setja sérstakar siðareglur að því er varðar aðstoðarmenn ráðherra og ég á ekki von á öðru en á því verði tekið. Þeir gegna sérstöku starfi í stjórnsýslunni sem aðstoðarmenn ráðherra og ég tel að það eigi að skoða þá ekki síður en aðra þegar við ræðum siðareglur í stjórnsýslunni. Í frumvarpinu er á því tekið að setja þurfi siðareglur að því er þá varðar einnig, alveg eins og um ráðherrana og aðra í stjórnsýslunni. Það verður líka tekið almennt á störfum þeirra að því er varðar bætt umhverfi í stjórnarháttum Stjórnarráðsins, en eins og ég nefndi áðan er nefnd að vinna í því máli sem væntanlega mun skila 1. apríl.