138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Maður fer nánast að verða væminn hérna. Ég hlakka til að fara út í svona vinnu. Þegar tvær manneskjur eiga í hlut væri óeðlilegt að þær væru sammála og sér í lagi fólk með ólíka pólitíska sýn, en aðalmarkmiðið er að finna þennan sársaukaþröskuld og það tilheyrir pólitík.

Varðandi vernd þeirra sem hýsa hefur verið sagt að þetta sé nánast eins og prentsmiðja. Ef það væri alltaf hægt að lögsækja prentsmiðjur fyrir blöðin sem þær prenta fengjum við kannski aldrei nein blöð. Þetta hefur ítrekað verið notað af þeim sem sækja að útgáfum, sér í lagi smærri útgáfum sem hafa þurft að fara kannski land úr landi. Það er alltaf gengið á hýsingaraðilann, hann er kærður og þá hættir hann að vilja hýsa. Mér finnst mjög mikilvægt að fara mjög vel yfir og styrkja þá löggjöf.

Eins og ég segi er þetta flókið og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um þessi mál. Netið er óræður heimur þó að maður sé búinn að dvelja í honum nánast samfleytt í allt of langan tíma, en þetta er þannig verkefni að manni líður alltaf eins og maður komi svolítið ríkari frá því. Það er alveg frábært hvað það er búið að fá rosalega mikla jákvæða umfjöllun úti um allan heim. Við erum komin með alveg ótrúlega mikinn fjölda af vinum úti í heimi fyrir vikið, nema kannski Kínverja.