138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum. Þetta er frumvarp sem nokkrir þingmenn flytja, sú er hér stendur, hv. þm. Pétur H. Blöndal, Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir. Það eru því þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum sem flytja þetta mál og hafa flestir gert nokkrum sinnum áður.

Þetta mál er ekki stórt í sniðum en hefur mikil áhrif. Þetta eru tvær greinar og 1. gr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Síðari málsliður 51. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Sé þingmaður skipaður ráðherra skal hann víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherradómi og tekur varamaður hans sætið á meðan.“

Þetta er sem sagt megininnihaldið. Svo er það 2. gr., með leyfi virðulegs forseta, og hún er svohljóðandi:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta eru einungis tvær greinar og síðan kemur greinargerðin. Þetta er mjög lítið og stutt allt saman en hefur mikil áhrif. Þetta þýðir að við förum úr því fyrirkomulagi sem við höfum nú, að ráðherrar geti setið líka sem þingmenn á sama tíma, yfir í það sem tíðkast sums staðar annars staðar, ekki alls staðar, en m.a. í Noregi og Svíþjóð þar sem ráðherra getur ekki á sama tíma verið þingmaður heldur þarf að velja þar á milli. Flestir velja nú ef þeim býðst að verða ráðherrar að taka það að sér en þeir eiga þá afturkvæmt inn í þingið ef þeir missa síðan ráðherradóm af einhverjum ástæðum.

Í greinargerðinni kemur fram, virðulegi forseti, að frumvarp sama efnis var flutt á 123. þingi, 131., 132., 135. og 136. löggjafarþingi. Það er því búið að mæla fyrir því alloft úr þessum ræðustól. Ég vil líka taka fram að á 130. löggjafarþingi 2003–2004 flutti þáverandi þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, frumvarp á sambærilegum nótum. Þótt búið sé að flytja þetta mál oft hér er áhuginn á því að þessi breyting öðlist gildi alls ekki að minnka. Við höfum einmitt hlustað á mjög margar raddir, sérstaklega hjá stjórnmálamönnum og auðvitað líka fólkinu í landinu, um að fólk vilji fá stjórnlagaþing. Þetta er eitt af því sem er rætt í því sambandi, að stjórnlagaþing ætti að taka einmitt á þessari hugmynd ásamt mörgum öðrum um að ráðherrar víki af þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi.

Virðulegi forseti. Íslenskt réttarríki byggist á hugmyndum sem margir þekkja og lærðu í skóla á sínum tíma, hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þetta kemur fram í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Hugsunin að baki þessari þrískiptingu er að hver valdhafi um sig takmarki vald hinna en þó ætti hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskráin okkar byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn, þannig að þeir sitji bæði sem framkvæmdarvald og hluti af löggjafarvaldinu. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er því í raun ekki eins mikill og 2. gr. stjórnarskrárinnar áskilur.

Ég vil einnig draga það fram að meginhluti þingstarfa, eða alla vega stór hluti þeirra, fer fram í þingnefndum. Þótt það sé ekki meitlað í stein hefur skapast sú hefð að ráðherrar gegni ekki setu í þingnefndum. Ég er ekki að leggja það til, alls ekki, nema síður sé. Ég dreg fram að með þessu má segja að viss hluti þingheims sé ekki nema að ákveðnu leyti virkur í þingstörfunum, taki ekki þátt í nefndastörfum. Þetta er líka atriði sem ber að hafa í huga.

Í greinargerðinni kemur fram, virðulegur forseti, að jafnhliða þeirri breytingu sem frumvarpið mælir fyrir telja flutningsmenn rétt að skoða — ég undirstrika orðið skoða — hvort ástæða sé til að fækka þingmönnum. Ég veit að margir vilja láta skoða það sérstaklega, m.a. vegna þess að verði þessi breyting gerð blasir við, miðað við hvernig staðan er núna, að tíu ráðherrar eru líka alþingismenn. Tveir hæstv. ráðherrar eru nefnilega ekki þingmenn í dag, þ.e. hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ef við tækjum þessa breytingu í gegn núna mundu tíu þingmenn úr stjórnarliðinu sem verða ráðherrar, þ.e. frá VG og Samfylkingunni, fara frá þingstörfum og tíu þingmenn kæmu inn frá þeim flokkum, þ.e. VG og Samfylkingunni. Þannig segja sumir, og það er alveg rétt ábending, að þetta mundi styrkja vægi sitjandi ríkisstjórnar á hverjum tíma nema brugðið sé á það ráð að styrkja stjórnarandstöðuna jafnhliða með öðrum hætti. Ég hef dregið það fram í þessari umræðu að ástæða sé til að skoða það af því að það er vissulega galli á þessu frumvarpi að því leyti að komi inn varamenn þessara flokka eiga þeir flokkar bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmenn en ekki eina manneskju með báða hattana eins og það er í dag.

Margir spyrja líka, og ég hef sjálf, virðulegur forseti, verið spurð að því hvort þetta sé eitthvert vandamál og hvort það þurfi nokkuð að breyta þessu, þeir sem vilji geti afsalað sér þingmennsku ef þeir verða hæstv. ráðherrar, sleppt því að mæta í þingið, tekið inn sinn varamann o.s.frv. Jú, þetta er allt hægt en það er galli á því líka. Ef hæstv. ráðherra gerir þetta á hann, miðað við löggjöfina í dag, ekki afturkvæmt í þingið ef hann missir ráðherradóm eða fer úr ráðherradómi af einhverjum ástæðum. Ég tek sem dæmi að þegar sú er hér stendur gegndi stöðu ráðherra fékk hún þessa spurningu: Af hverju tekur þú ekki inn þinn varamann? Svarið er að það felst talsverð áhætta í því að geta ekki átt afturkvæmt. Reyndar lenti sú sem hér stendur einmitt í þessari stöðu, ef hægt er að orða það sem svo. Vegna ákveðinna aðstæðna milli flokkanna sem var gengið frá við ríkisstjórnarskipti, þegar ný ríkisstjórn tók við eftir kosningar, var ákveðið að það ráðuneyti sem sú er hér stendur veitti forustu færi yfir til hins flokksins á ákveðnum tímapunkti. Það var vitað að einhver af ráðherrum Framsóknarflokksins á þeim tíma yrði að víkja og Sjálfstæðisflokkurinn fengi einn aukaráðherra. Þetta er því ekki svo auðvelt eins og staðan er í dag.

Virðulegur forseti. Ég vil líka draga fram að þegar ráðherrar eru valdir í Noregi og Svíþjóð, eins og ég sagði áðan, gegna þeir ekki þingmennsku samhliða. Reyndar eru þar oftar valdir einhverjir utan frá en gengur og gerist hjá okkur. Þegar maður lýsir fyrir norrænum gestum, sérstaklega frá Svíþjóð og Noregi, hvernig þetta er hér verða þeir margir mjög hissa af því þeir eru svo vanir hinu kerfinu og telja að sitt kerfi sé miklu betra. Ég held að það sé þannig og þess vegna flyt ég þetta mál ásamt fleirum.

Það er líka ein hlið á þessu og það er hið svokallaða ráðherraræði. Ég vil benda á og hef upplifað það sjálf, virðulegi forseti, að hér fyrir nokkrum árum síðan, bæði á árabilinu 1991–1995 — ég var reyndar ekki á þinginu á þeim tíma en á árabilinu 1995–2007 var sú er hér stendur í þinginu — var Alþýðuflokkurinn í ríkisstjórn á þessu fyrra tímabili, 1991–1995, og á árabilinu 1995–1997 var Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn. Hjá báðum þessum ríkisstjórnarflokkum á þessum tímabilum voru þingmenn þeirra 12 og sex þeirra voru hæstv. ráðherrar. Helmingur þingflokkanna voru því ráðherrar. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þegar mál eru rædd í ríkisstjórn og flokkarnir stöðva ekki málið hvor fyrir öðrum, fallast í reynd á málin, þá hafa í þessum tilvikum sex ráðherrar úr öðrum stjórnarflokknum fallist á eitthvert mál í ríkisstjórn og fara svo með sama málið inn í sína þingflokka þar sem eru aðrir sex þingmenn. Þá er hálfur þingflokkurinn þegar búinn að samþykkja mál frá ríkisstjórninni og hefur mjög mikla tilhneigingu til þess að vilja hamra það í gegnum sinn þingflokk. Þetta þekkist ágætlega og það eykur mjög mikið skriðþungann á ráðherraræðinu að hafa málin í þessum farvegi. Þetta væri öðruvísi ef þessir ráðherrar kæmu inn og kynntu fyrir þingflokknum mál þar sem ráðherrarnir væru í talsverðum minni hluta, þá væri kannski auðveldara að standa í ístaðinu ef þetta eru mjög viðkvæm mál, sem auðvitað mjög oft er. Sumir segja reyndar að þetta skipti engu máli því það sé svo mikið flokksræði á Íslandi, formennirnir hamri það í gegn sem þeir vilja. Ég held að það sé ekki þannig. Ég held reyndar að flokksræðið og þetta formannaræði sé aðeins að minnka í íslenskri pólitík í dag og ég tel að það sé bara ágætt. Það er kannski vegna þess sem við höfum upplifað upp á síðkastið að fólk er viljugra til þess að standa fyrir sínu en ekki lúta alltaf miklum flokksaga. Þótt það sé vissulega nauðsynlegt líka má það ekki ganga of langt, virðulegur forseti.

Framsóknarmenn hafa ályktað um þessi mál nokkrum sinnum. Árið 2007 var til dæmis sérstaklega ályktað um þetta á flokksþingi. Ég vil líka draga fram að á flokksþingi í janúar 2009, sem er síðasta flokksþingið sem við héldum, var líka ályktað um að þingmenn segðu af sér þingmennsku á meðan þeir væru í ráðherraembættum. Framsóknarmenn hafa líka verið mjög áhugasamir um stjórnlagaþing og lögðu fram mál af þeim toga á þarsíðasta þingi. Það mál var mikið rætt í aðdraganda síðustu alþingiskosninga sem voru í apríl í fyrra. Því miður náðist það ekki í gegn. Það var afar þungbært fyrir okkur að það skyldi ekki nást í gegn en það var aðallega fyrir þær sakir að sjálfstæðismenn voru mjög ósáttir við að hleypa því máli í gegn, beittu sér mjög harkalega gegn því og það var ekki hægt að klára það mál í umræðunni vegna þess að alþingiskosningar voru á næsta leiti. Það var hægt að taka það mál í gíslingu, það var gert og það verður bara að hafa það. Þess vegna sitjum við uppi með að flytja þetta hér enn á ný og ekki er komið stjórnlagaþing enn þá. Framsóknarmenn munu alla vega vinna að því að svo verði og auðvitað viljum við helst að það verði bindandi stjórnlagaþing, að til þess verði kosið og það verði með einhverjum hætti bindandi en ekki ráðgefandi. Það er önnur umræða sem við þurfum að taka síðar.

Ég veit líka til þess að þing unga fólksins ályktaði á þessum nótum árið 2007. Þar segir að enginn skuli gegna þingmennsku og embætti ráðherra á sama tíma o.s.frv. þannig að unga fólkið hefur látið til sín taka í þessu. Ég vil líka koma því á framfæri að Samfylkingin hefur ályktað um þessi mál, árið 2003 var komið inn á þetta á landsfundi Samfylkingarinnar og sagt að ráðherrar eigi að segja af sér þingmennsku þegar þeir gegna ráðherraembætti. Árið 2005 segir líka í ályktun frá Samfylkingunni — og ég ætla að lesa þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Ráðherrar gegni ekki þingmennsku sem m.a. stuðlar að því að skerpa aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds.“

Það er alveg ljóst að Samfylkingin hefur ítrekað ályktað um þetta. Ég hef ekki haft tíma til þess að fletta upp á nýjustu ályktun Samfylkingarinnar en ég veit að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mun taka til máls á eftir og getur kannski skýrt betur hvort þar sé eitthvað nýtt. Alla vega er það mjög einbeittur vilji Samfylkingarinnar að standa að þessu máli og fá þetta í gegn.

Svo vil ég líka koma inn á eitt, virðulegur forseti, af því að áðan talaði ég um að það væri vilji til þess að skoða hvort fækka ætti þingmönnum. Ég hef reyndar talsverðar efasemdir um það en ef við tökum 10–12 þingmenn sem verða ráðherrar út af þinginu og setjum inn nýja 10–12 varamenn þá fjölgar auðvitað í hópnum og þetta er dýrt, það kostar. Sumir segja að þá skulum við bara fækka þingmönnum á móti til að vega upp á móti kostnaðinum. Ég hef talsverðar efasemdir um það en þetta er í greinargerðinni af því að það eru aðilar sem eru meðflutningsmenn sem hafa talsverðan áhuga á þessu. Mér finnst ágætt að koma því á framfæri að hér á Alþingi eru 63 þingmenn, í Noregi eru þeir 169, í Danmörku 179, í Finnlandi 200 og í Svíþjóð 340. Það eru geysimargir í Svíþjóð. [Þingmaður fær hóstakast.] Það stendur eitthvað í mér hvað þingmenn eru margir í Svíþjóð.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu öllu lengri enda er röddin farin. (Gripið fram í: Siv, ertu með vatn?) Ég er með vatn hérna, takk. Ég vona að þetta fái góða umfjöllun og fari til sérnefndar og þetta mál verði að veruleika, helst sem allra fyrst.