138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:38]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að við förum að endurskoða kerfið sem við vinnum með hér. Fyrirkomulagið er eins og allir þekkja. Hvað varðar löggjöfina koma, eftir því sem ég best veit, um 90% af allri löggjöf frá framkvæmdarvaldinu. Þar af leiðandi koma á bilinu 8–10% frá löggjafarvaldinu sjálfu, ef segja má svo, ef við megum ræða þetta á þann hátt. Eins og hv. þingmaður kom inn á áðan er talað um þingmannamál annars vegar og svo hins vegar mál ríkisstjórnarinnar.

Svo er hitt sem mér finnst mjög bagalegt, að frumvörpum þingmanna er ekki einu sinni sýnd sú virðing að klára þau út úr nefnd. Ég man eftir því að hæstv. fyrrverandi forseti, Sturla Böðvarsson, lagði til að öll mál yrðu kláruð, þau yrðu ekki svæfð í nefnd eins og við þekkjum. Mér finnst sjálfsögð virðing við okkur sem hér störfum og leggjum vinnu okkar í alls konar mál sem við reynum að koma til framkvæmda í gegnum löggjöfina að þau séu afgreidd. Við eigum ekkert að vera hrædd við að hafna málum ef því er að skipta. Við eigum að greiða atkvæði um hvert einasta mál. Það er sú lágmarksvirðing sem hægt er að sýna löggjafarvaldinu eins og staðan er í dag.

Ég er algjörlega sammála þessu frumvarpi og ég vil að það verði gengið í þá átt að ráðherrar séu ekki þingmenn á sama tíma og þeir gegna því hlutverki sem þeir hafa hjá framkvæmdarvaldinu. Ég tel mikla þörf á að styrkja stöðu Alþingis og draga um leið úr valdi framkvæmdarvaldsins. Ef við berum þessa hluti saman erum við að tala um að framkvæmdarvaldið hefur þúsundir starfsmanna. Ég er ekki með töluna alveg á takteinum. Ég veit þó að hið opinbera hefur í heild um 29.000 starfsmenn og eftir því sem ég best veit er þingið með um 100. Þó að þetta séu nú kannski ekki alveg haldbærar tölur erum við að tala um þúsundir starfsmanna á móti rúmlega 100 sem starfa á þinginu. Sama vægið er víða, það er ekki bara hérna í löggjöfinni, heldur er það líka varðandi aðgang að upplýsingum og annað slíkt.

Eins og við vitum eru flest frumvörp, eins og ég kom inn á áðan, unnin í ráðuneytunum undir leiðsögn ráðherra. Þá eru þau lögð fram í ríkisstjórn og síðan á Alþingi. Á Alþingi eru þau rædd og send í nefnd. Oft fer fram mjög mikil og góð umræða og einhverjar breytingar verða á frumvörpunum á leiðinni í gegnum þingið. Þær breytingar eru þó oftast minni háttar. Afdrif þingmannafrumvarpa, eins og ég nefni þau hér, eru oftast þau að þau ná ekki fram að ganga. Samkvæmt því er það raunverulega framkvæmdarvaldið, ráðherrar og ráðuneyti, sem mótar löggjöfina í landinu. Ég mundi segja að það væri ekki samkvæmt stjórnarskránni, það hlutverk er ekki ætlað framkvæmdarvaldinu. Í mínum huga er hlutverk framkvæmdarvaldsins að framkvæma lögin, setja reglugerðir og hafa eftirlit með því að kerfið fari að lögum en ekki að setja lögin. Lögin eiga að koma frá Alþingi og þingmönnum en ekki ráðherrum. Þetta er það kerfi sem stjórnarskráin okkar gerir ráð fyrir. Af einhverjum ástæðum hefur þó kerfið þróast þannig að framkvæmdarvaldið hefur tekið sér meira vald. Ég tel að við eigum að snúa þessari þróun við. Nú er tækifærið til þess. Við erum á tímamótum í samfélaginu og það er kallað eftir breytingum og við höfum vald til að gera breytingar. Það er gaman að sjá að stjórnarliðar taka hérna undir með hv. þingmönnum úr stjórnarandstöðunni hvað þetta varðar.

Ég tel að skerpa þurfi skilin á milli þingsins og ríkisstjórnarinnar. Augljós byrjun er þá að ráðherrar séu ekki þingmenn, ríkisstjórnin starfi samt áfram í skjóli Alþingis, hvort sem það er meirihluta- eða minnihlutastjórn, og þingflokkarnir sem styðja stjórnina komi sér saman um skiptingu ráðuneyta og velji sér ráðherra. Ráðherrar úr röðum þingmanna eiga að segja af sér þingmennsku.

Vald nefnda Alþingis þarf þá að efla verulega og á þeirra verksviði ætti undirbúningur og samning lagafrumvarpa að vera. Til að þetta nái fram að ganga þarf hver nefnd á nokkrum fjölda starfsmanna að halda en á móti kæmi að umsvif ráðuneyta yrðu töluvert minni, eins og ég kom inn á áðan. Það á að vera á forræði þeirra þingflokka sem standa að baki stjórninni að koma sér saman um lagabreytingar og lagafrumvörp, ráðherrar og ráðuneyti eiga ekki að koma beint að þeirri vinnu. Þingið mundi sjálft sjá um að undirbúa þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að uppfylla t.d. skyldur okkar gagnvart EES. Í mínum huga ætti ríkisstjórninni samt sem áður að vera heimilt að leggja fram tillögur að lagabreytingum og nauðsynlegt er að gott samstarf verði um þá vinnu milli ríkisstjórnar og Alþingis. Alþingi yrði áfram að gæta að þeirri norrænu lagahefð að lög séu almenn og að þeim til fyllingar séu reglugerðir sem koma úr ráðuneytum og dómafordæmi frá dómstólum.

Ég tel eðlilegt að stjórnarskráin sé endurskoðuð. Hins vegar sé ég ekki veigamikil rök fyrir því að við hverfum frá þeirri norrænu stjórnskipunarhefð sem þingræðið er. Það má auðveldlega styrkja löggjafarvaldið og hlutleysi dómstóla án þess að farið sé í grundvallarbreytingar á stjórnarskránni. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að endurvekja traust almennings á lýðræðinu og stofnunum þess. Allar grunnstoðir lýðræðisins, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, verða að vera jafnsterkar, geta veitt hver annarri aðhald og sýna hver annarri fullnægjandi virðingu. Þetta er hins vegar það mikilvægt mál að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi verða að koma að þessari vinnu. Verði niðurstaða slíkrar skoðunar að fara fram á breytingar á grundvallarskipun íslenska lýðveldisins þarf til þess tíma og ráðrúm sem ég held að við höfum gefið okkur hér, bæði með vinnu í nefndum og endurskoðun á stjórnarskránni.

Mér skilst að þetta frumvarp sé ekki lagt núna fram á Alþingi í fyrsta skipti, og væntanlega heldur ekki það síðasta eftir undirtektunum að dæma hér í þingsal. Við erum ekki það mörg að ræða málið, og enginn frá framkvæmdarvaldinu þrátt fyrir að þeir einstaklingar hafi oft og tíðum látið í sér heyra þegar þeir sátu ekki í ráðherrastólunum. Það væri mjög gaman ef einhver ráðherra segði skoðun sína á þessu máli. Oft virðast menn skipta um skoðun þegar þeir skipta um stóla. Segulmagnið í ráðherrastólunum er það öflugt að menn vilja ekki hreyfa við því.

Ég vona að við sjáum breytingar í þessa veru eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og ég held að það væri öllum fyrir bestu. Það mundi styrkja löggjafarvaldið, og framkvæmdarvaldið líka í sínum verkum af því að þá væru verkefni þess skýrt afmörkuð. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á áðan er það ekki fyrir nokkurn mann að vera í tveimur hlutverkum í einu og eiga að gæta að þessum tveimur hlutverkum í senn, einn og sama manninn. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til ráðherra og þess vegna held ég að rétt sé að breyta þessu.