138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Mér svelgdist eitthvað á hér áðan, ég biðst afsökunar á því, en ég var komin þangað í ræðu minni þar sem ég var að tala um að það væru 349 þingmenn í Svíþjóð og eitthvað fór það nú öfugt ofan í þá sem hér stendur. Ég vil að lokum þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið. Hér hafa margir þingmenn tekið til máls og allir verið jákvæðir. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Erla Ósk Ásgeirsdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa tekið þátt í þessari umræðu og öll verið mjög jákvæð gagnvart málinu. Ég fagna því.

Það kom fram hjá hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur og hefur reyndar komið margoft fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum að allt of mörg frumvörp hafi komið frá framkvæmdarvaldinu. Að mínu mati er það ekki séríslenskt fyrirbæri, ég held að það sé þannig á öllum Norðurlöndunum vegna þeirrar uppbyggingar sem við erum með á bæði þingum og ráðuneytum. Ráðuneytin búa yfir miklum eða talsvert miklum flota af sérfræðingum sem eru þess umkomnir að geta skrifað frumvörp og eru lögfræðingar og sérfræðingar á öðrum sviðum. Mér finnst það í sjálfu sér ekkert gífurlega óeðlilegt. Mér finnst ekki að það eigi endilega að snúa þessu á haus þannig að meginhluti frumvarpa spretti endilega upp í þinginu og minni hlutinn frá ráðuneytinu. Mér finnst ekki endilega vera brýn nauðsyn á því. Auðvitað vill maður sjá fleiri frumvörp samþykkt sem þingmenn flytja, mér finnst það kannski miklu meira virði. En mér finnst alveg eðlilegt að ráðuneytin séu mikil uppspretta frumvarpa. Hins vegar mætti alveg styrkja þingið þannig að þingmenn fengju meiri aðstoð við að útbúa frumvörp. En við höfum vissulega ágætisaðstöðu hér og fáum hjálp, alla vega finnst þeirri er hér stendur að hjálpin sé ágæt sem við fáum við að semja frumvörp.

Hins vegar hef ég þá skoðun, virðulegi forseti, að það þurfi að breyta talsverðu varðandi ráðuneytin, ég held að það þurfi að styrkja þau. Ég er sammála því að það þurfi að styrkja Alþingi en ég er líka á þeirri skoðun að styrkja þurfi ráðuneytin. Ég held að mörg ráðuneyti séu hlutfallslega veik miðað við undirstofnanir. Ég veit um ýmis dæmi þess að ráðuneyti eru talsvert minni en þær undirstofnanir sem eru undir þeim. Ég held að hægt sé að styrkja ráðuneytin almennt, jafnvel á kostnað undirstofnana.

Á sínum tíma var þetta mál sem við erum að ræða skoðað í nefnd sem var að skoða breytingar á stjórnarskrá. Jón Kristjánsson, þáverandi þingmaður, leiddi starf þeirrar nefndar. Því miður kom eiginlega ekkert út úr þeirri nefnd, allt of lítið. Það var aðallega af því að tíminn fór mjög mikið í að togast á í nefndinni skilst mér, m.a. um neitunarvald forseta Íslands þar sem Samfylkingin vildi frekar verja það en Sjálfstæðisflokkurinn jafnvel fá það í burtu, það var mikið tog um það í nefndinni. Það var líka tog um ákvæðið um að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn voru ekki alveg á því, þannig að þeir hlupu ekki upp til handa og fóta og liðkuðu fyrir að það væri gert. Allt þetta tog varð til þess að eiginlega kom ekkert út úr nefndinni. Því miður er það svo að þegar við ætlum að breyta stjórnarskránni, þá virðist allur vilji koðna meira og minna niður af því að menn fara að togast svo mikið á. Það er gerð svo rík krafa um að mikil sátt ríki um breytingar á stjórnarskrá, sú krafa er allt of rík að mínu mati, hún er það rík að menn gera aldrei neinar breytingar eða bara ósköp litlar. Því miður hafa brýnar og nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá ekki getað átt sér stað. Þess vegna hefur verið meiri þungi varðandi það að fá hér stjórnlagaþing. Ég tel að það þurfi að vera aðeins meiri liðlegheit varðandi það að gera breytingar á stjórnarskrá, þó að ég vilji ekki að hægt sé að breyta henni með einhverjum allt of einföldum hætti heldur, það kastar nú alveg tólfunum hvað þetta er þungt í dag.

Hér hafa allir flokkar, virðulegi forseti, talað vel um þetta frumvarp. Það er reyndar einn flokkur sem hefur ekki tekið til máls og það er VG. Ég tel að VG sé frekar, þótt ég eigi nú ekki vera að túlka stefnu þeirra, þá hafa þeir verið frekar þungir varðandi þetta mál. Á sínum tíma tjáði hv. þm. Ögmundur Jónasson sig um það, hann var nú ekki mjög hrifinn af því, en vel má vera að það hafi breyst. Ég tel og giska á, ég hef nú ekki gert vísindalega könnun á því, en ég giska á að það sé meiri hluti fyrir málinu í þinginu, ég held það nefnilega. Ég held að þó að stjórnmálaflokkar fari í ríkisstjórn verði þeir ekki andsnúnir málinu þar með, alls ekki. Samfylkingin vill þetta, hún situr í ríkisstjórn. Ég held hún hafi ekki skipt um skoðun þótt hún sitji í ríkisstjórn. Ég held því að meiri hluti sé fyrir þessu máli hér á þinginu. Ég held að reyndar sé líka meiri hluti fyrir því úti í samfélaginu.

Það sem gerir þetta svo þungt er að breyta þarf stjórnarskrá til að ná þessu í gegn og það þarf þá að samþykkja málið rétt fyrir kosningar, svo þarf að kjósa, svo þarf að samþykkja það aftur til að það verði að raunveruleika. (Gripið fram í: Ertu hætt að hósta?)

Já, virðulegur þingmaður, ég er hætt að hósta.

Ég er því nokkuð bjartsýn á að þetta nái einhvern tímann fram að ganga. En það væri auðvitað langbest að gera þetta núna fyrir næstu kosningar, að taka stökkið, klára þetta og ef ekki er auðvitað líka möguleiki á að gera þetta í sambandi við fleiri breytingar á stjórnlagaþingi sem svo vissulega er þörf á.

Ég ætla ekki að lengja þetta meira, virðulegi forseti, en vil að lokum þakka fyrir mjög góða umræðu og að þingmenn hafi setið hér alveg til sex við að ræða þetta og ég þakka fyrir allan þann stuðning sem málið hefur fengið.