138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera undir hæstv. forsætisráðherra spurningu sem snýr að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem er ákveðin um næstu helgi á laugardaginn. Tilefnið er það að ráðherrar í ríkisstjórn hafa talað hver með sínum hætti um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og jafnvel hver með sínu hætti um hvernig þeir hyggjast greiða þar atkvæði. Sumir ráðherrar í ríkisstjórninni segja sem svo að þeir sjái það fyrir sér að sleppa við að mæta, en mæti þeir muni þeir styðja lögin frá því í desember. Aðrir ráðherrar segja sem svo að það sé tilgangslaust að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og það sé augljóst að það muni engum detta það í hug nema þá þessum tiltekna ráðherra sem ég vísaði til, að styðja lögin frá því í desember.

Nú eru einungis fimm dagar þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram og við höfum á undanförnum dögum fengið að sjá að ríkisstjórnin gerir ekki mjög mikið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni í orði og í verki. Það fer lítið fyrir kynningu á þjóðaratkvæðagreiðslu. Bæklingur sem berast átti almenningi kemur afskaplega seint, auglýsingar í blöðum helgarinnar eru litlar og er það varla að maður taki eftir þeim. Það vekur auðvitað upp spurningar um hvort það sé svona sem ríkisstjórnin almennt telur að eigi að standa að kynningu á þjóðaratkvæðagreiðslum, t.d. eins og þeirri sem verður þegar samningur næst um aðild að Evrópusambandinu, ef af því verður. Er það svona sem menn ætla að standa að kynningu og undirbúningi þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu?

Aðalatriðið er þetta: Er hæstv. forsætisráðherra að velta því fyrir sér að fella lögin frá því í desember úr gildi eða er ekki alveg ábyggilegt að þjóðaratkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) fer fram á laugardaginn næstkomandi?