138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

heilsuefling í skólakerfinu.

[15:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en vil þó minna á að það var ekki hluti af stjórnarsáttmálanum að fara í fría skólamáltíð. Þetta hefur hins vegar verið lengi á dagskrá Vinstri grænna, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, og ég hef átt orðaskipti við ýmsa hv. þingmenn um þessi mál. Það liggur fyrir að það yrði kostnaður — nú man ég ekki svo gjörla hvort það hefur komið fram hér í pontu — upp á einhverja milljarða ef ríkið færi í þátttöku með sveitarfélögunum varðandi skólamáltíðir. En hins vegar höfum við haldið málinu vakandi og fylgjumst í raun vel með hvernig þessar máltíðir nýtast. Það hefur ekki orðið mikil breyting á því, svo því sé til haga haldið, hvernig þær eru nýttar.

Hvað varðar hreyfingu er að sjálfsögðu kveðið á um hana í námskrá, bæði íþróttakennslu í grunn- og framhaldsskólum og hafa ýmis góð verkefni verið unnin á því sviði í ráðuneyti menntamála á undanförnum árum. Ég nefni sem dæmi verkefnið Skólahreysti. Það hefur líka verið sérstök íþróttavakning í framhaldsskólum þannig að það hefur verið talsvert um verkefni sem miða að því að efla hreyfingu bæði í grunn- og framhaldsskólum, auka áhuga ungmenna á hreyfingu með mikilli þátttöku skóla um land allt. Niðurskurður á hreyfingu hefur ekki verið, hvorki í námskrá né í almennum rekstri skóla þar sem lögð hefur verið áhersla á einmitt þau verkefni. Hins vegar er það áhyggjuefni hve kyrrseta barna og ungmenna hefur aukist og þá ekkert endilega á skólatíma heldur utan skólatíma. Það á ekki bara við um börn og ungmenni, það á við um allar kynslóðir sem eyða meiri tíma kyrrar, hvort sem er fyrir framan sjónvarp eða tölvu. En það hefur verið lögð mikil áhersla bæði á sértæk átaksverkefni í hreyfingu hvort sem þau heita Lífshlaup, Skólahreysti eða annað innan skólakerfisins. Að sama skapi er enn þá kveðið á um hreyfingu í aðalnámskrá allt frá leikaskólastigi til framhaldsskóla.