138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

spilavíti.

[15:18]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þrátt fyrir það ákvæði hegningarlaga sem vitnað var til í fyrirspurninni eru happdrættisstarfsemi hér á lendi settar ákveðnar skorður í löggjöf frá Alþingi. Þar er annars vegar um að ræða almenn lög um happdrætti og hins vegar sérlög þar sem ákveðnum félögum er heimiluð happdrættisstarfsemi í ákveðnum tilgangi.

Í happdrættislögunum er almennt bann við auglýsingum sem löggjafinn taldi að ætti einmitt við um slíkar auglýsingar sem nefndar voru hér áðan. Þá ber að nefna til sögunnar að Hæstiréttur dæmdi í slíku máli í júní sl. þar sem maður var sýknaður af ákæru um að hafa brotið gegn happdrættislöggjöfinni með því að birta svona auglýsingu. Þarna var að okkar mati ófyrirséð gat í löggjöfinni og það þarf að stoppa í það gat. Frumvarp þess efnis er í smíðum í ráðuneytinu til þess að breyta refsiákvæði happdrættislöggjafarinnar þannig að það skipti þá ekki máli hvort auglýsingin er fyrir starfsemi sem er hér á landi eða erlendis. Það má ekki auglýsa þá starfsemi sem ekki hefur verið fengið leyfi fyrir.