138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

skuldavandi heimila og fyrirtækja.

[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil bæta við einni spurningu. Kveðið er á um í lögum frá 2009 að nefnd skuli skila efnahags- og viðskiptaráðherra niðurstöðum um hvernig árangur hefur verið varðandi aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Samkvæmt lögunum á sú nefnd að skila af sér 1. mars, það er í dag. Hvað líður þeirri skýrslu og munum við hér í þinginu fá tækifæri til þess að fjalla um það hvernig framkvæmd hefur verið á lögunum sem eiga að vera í þágu einstaklinga og fyrirtækja?

Hitt ber að undirstrika og það er rétt að hafa það í huga að fyrir mánuði síðan kom fram skoðanakönnun sem ASÍ gerði. 91% landsmanna eru á þeirri skoðun að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna og fyrirtækjanna gagnist ekki. Þær duga ekki til þess að hjálpa fyrirtækjunum og ekki heldur fjölskyldunum út úr þeim vanda sem þau standa frammi fyrir í dag. Það er rétt að undirstrika það að meðan frestur er á nauðungarsölum „tikka“ dráttarvextirnir. Vandinn eykst. (Forseti hringir.) Ég hvet því ríkisstjórnina og segi: Komið ykkur að verki, komið með ykkar tillögur. Við skulum nota vikuna í að ræða það.